Haukar fengu heimsókn frá Þorlákshöfn í 16. umferð deildarinnar í kvöld. Sunnan-Þórsarar hafa verið Haukum óþægur ljár í þúfu á þessu tímabili – fyrst máttu Haukar þola 89-80 tap í deildarkeppninni í Þorlákshöfn og strax í næsta leik var þeim hent út úr bikarkeppninni eftir að hafa þurft að lúta í gras í Ólafssalnum fagra í fyrsta sinn. Þórsarar hafa þó ekki þurft á stórum stigapoka að halda undanfarna tvo mánuði, hafa aðeins sigrað tvo leiki og annar þeirra var gegn Val en allir vinna Valsmenn…nema Stólarnir. Við skulum kanna hvað kúlan segir.

Spádómskúlan: Ryðgaður og úr sér genginn hnífur birtist í kúlunni. Af einhverjum ástæðum bíta ekki hafnfirsk vopn á Þórsara og enn og aftur sigra þeir Hauka, að þessu sinni 84-80.

Byrjunarlið:  

Haukar: Hjálmar, Flen, Kári, Emil, Robinson

Þór Þ.: Bakovic, Frink, Halldór, Emil, Mignani

Gangur leiksins

Leikurinn rauk af stað af miklum krafti og strax hægt að gera sér vonir um skemmtilegan og spennandi leik. Emilarnir glöddu áhorfendur með hvor sínum þristinum og má vart á milli sjá hvor er með tignarlegra skot. Það var mikill kraftur í gestunum og segja má að þeir hafi verið tánögl framar heimamönnum. Þrátt fyrir það var jafnt á öllum tölum en það var einkum nautslegur styrkur stóru mannanna hjá Haukum sem skilaði stigum þeirra megin. Bako og Frink stóðu vaktina vel undir körfunni en það dugði bara ekki alltaf til og Robinson var kominn með 11 stig eftir fyrsta leikhluta. Sóknarleikur gestanna var öllu fjölbreyttari, frábær boltahreyfing og margir lögðu lóð á vogarskálarnar. Staðan var 23-24 eftir einn.

Flen byrjaði annan leikhluta vel og aftur verður að taka fram að vörn Þórs var verulega góð en það dugði einfaldlega ekki! Bako fékk sína þriðju villu snemma í leikhlutanum sem gerði baráttuna erfiðari undir körfunni. Þórsarar voru hins vegar heitir fyrir utan línuna í þessum leikhluta sem gerði það að verkum að þeir náðu mest 30-41 forystu um miðjan leikhlutann. Einn af þristum gestanna var yfirgengilega glæsilegur, svo fagurfræðilega fullkominn að jafnvel Haukar vildu sjá skotið fara ofan í. Eftir að sóknin hafði komið öllum varnarmönnum Hauka á fleygiferð um allan völl eins og útspýtt hundskinn rataði aukasendingin góða á gaaalopinn Dabba Kóng! Réttast hefði verið að slá manninn hefði hann klúðrað skotinu, en það var óþarfi – ekkert nema net. Eftir leikhlé Martins náðu heimamenn að svara fyrir sig þrátt fyrir afleita hittni fyrir utan línuna. Þórsarar snöggkólnuðu og það var aðeins öðrum þristi frá Dabba kóngi að þakka að gestirnir héngu á örlitlu forskoti í hálfleik – staðan 41-44. Flen og Robinson voru full áberandi í stigaskorun heimamanna, voru með 25 stig samanlagt í hálfleik en hjá gestunum voru stig um alla töflu.

Þórsarar héldu frumkvæðinu fram eftir þriðja leikhluta en Bako fékk klaufalega fjórðu villu þegar um 6 mínútur voru eftir af honum og alvarleiki slíkra mála er kenndur við gröf. Um miðjan leikhlutann náðu heimamenn að snúa leiknum sér í vil og komust yfir 58-57 í fyrsta sinn í nokkuð langan tíma. Gestirnir fundu fyrir pressunni og misstu hausinn lítið eitt, Halldór fékk dæmda á sig óíþróttamannslega villu og allt í einu var staðan 62-57. Halldór var þó fljótur að festa hausinn betur á sig aftur og svaraði með snöggum 4 stigum. Frink setti svo flautuþrist í lokin og staðan 67-66! Geggjaður leikur í gangi!

Það væri hægt að lýsa fyrri fimm mínútum fjórða leikhluta í mjög löngu máli en á öld lesblindu og athyglisbrests gengur það ekki upp. Í stuttu máli var allt að gerast, frábærar sóknir, troðslur, þristar á báða bóga og liðin skiptust á forystunni. M.a. setti Haukur þrist og jafnaði leikinn, Dabbi svaraði að bragði en Haukur jafnaði auðvitað bara aftur í næstu sókn! Yndisleg skemmtun og þvílík fegurð.  Það var svo nafni, Kári Jóns, sem þurfti endilega að skemmileggja svolítið spennuna fyrir blásaklausum áhorfendum. Hann tók upp stóra sláttuorfið föður síns og með tveimur þristum í röð kom hann Haukum í 87-79 forystu þegar 4 mínútur lifðu leiks. Hann setti svo vörumerkisgegnumbrots-vinstrihandarspjaldiðofaní í næstu sókn og Haukar komnir með 10 stiga forystu. Frikki tók leikhlé og reyndi að blása von í sína menn. Þeir reyndu svo sannarlega og næst komust þeir heimamönnum þegar 1:14 var eftir í 90-85 eftir þrist frá Ragga Braga en brúin náði ekki í land að lokum. Lokatölur 92-86 í einkar fögrum leik…og það er enn janúar!

Menn leiksins

Flen og Robinson sáu að mestu um fyrri hálfleik en sem betur fer fyrir Hauka komu fleiri að málum í þeim seinni. Allt byrjunarliðið auk Hauks endaði með flottar tölur.

Frink var bestur hjá Þór, setti 26 stig og tók 9 fráköst. Davíð kom inn af bekknum með 13 stig og 3 fráköst.

Kjarninn

Sunnan-Þórsarar er án vafa það lið deildarinnar sem hefur uppskorið fæst stig miðað við spilamennsku. Liðið er þrælskemmtilegt og stútfullt af hæfileikum. Það segir mikið um styrk deildarinnar að þetta lið situr í 8. sæti deildarinnar og alls ekki öruggt um sæti í úrslitakeppninni. Fáránlegt. Maður sér það ekki fyrir sér að nokkurt lið hendi þeim svo auðveldlega til hliðar í úrslitakeppninni.

Það reyndi mjög á Haukaliðið í þessum leik enda Þórsliðið þúfa þung og varhugaverð. Liðið þarf auðvitað að fá framlag frá sem flestum áttum og fengu það að lokum í þessum leik. Flottur sigur og liðið er á spennandi siglingu þessa dagana. Haukarnir eru rétt eins og Þórsarar lið sem toppliðin Stjarnan og Keflavík…já og öll önnur lið… þurfa heldur betur að taka alvarlega.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Umfjöllun / Kári Viðarsson

Myndir / Bára Dröfn