Stjörnumenn tóku í kvöld á móti Þórsurum úr Þorlákshöfn í fyrsta leik seinni umferðar Domino’s deildar karla. Stjörnumenn fóru inn í jólafríið á toppi Domino’s deildarinnar, en Þórsarar voru í áttunda sæti. Bæði lið mættu til leiks með nýja leikmenn, en í liði Garðbæinga voru þeir Gunnar Ólafsson og Urald King komnir með leikheimild, og Jerome Frink var mættur til leiks í Þórstreyju í stað Vincent Bailly, baðst lausnar frá félaginu fyrir jólahlé.

Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik og réð varnarleikurinn för hjá báðum liðum. Í hálfleik höfðu Þórsarar eins stigs forystu 34-35, eftir að Stjörnumenn höfðu komist 8 stigum yfir í öðrum leikhluta, 30-22. Í þriðja leikhluta skildi hins vegar á milli með liðunum. Stjörnumenn rúlluðu hreinlega yfir Þórsara og unnu þriðja leikhluta með 17 stigum, 26-9, og höfðu 16 stiga forystu fyrir lokafjórðunginn, 60-44. Sú forysta var aldrei í teljandi hættu það sem eftir lifði leiks, en þrátt fyrir ágætis viðleitni komust gestirnir aldrei með muninn neðar en 10 stig. Að lokum vann Stjarnan góðan 14 stiga sigur, 84-70, og halda því uppteknum hætti frá því fyrir áramót. 

Lykillinn

Afar sterkur þriðji leikhluti skóp sigurinn hjá Stjörnunni, þar sem heimamenn fengu framlag úr öllum áttum. Urald King og Nick Tomsick drógu vagninn sóknarlega, og Hlynur Bæringsson og Tómas Þórður Hilmarsson voru öflugir í vörninni. Hjá Þórsurum voru Halldór Garðar Hermannsson og Jerome Frink öflugir, en þeir skoruðu 18 stig hvor.

Framhaldið

Næst spila Stjörnumenn í Seljaskóla gegn ÍR fimmtudaginn 9. janúar, en á sama tíma taka Þórsarar á móti Val í Þorlákshöfn.