Tindastóll tók á móti Njarðvík í Dominos deild karla í körfuknattleik í kvöld.  Heimamenn í Síkinu hungraði í sigur aftir tap gegn Keflavík suður með sjó í síðustu umferð. Menn vissu þó að það gæti orðið erfitt þar sem nýr kani Tindastóls var enn ekki kominn með leikhleimild og Sinisa Bilic, besti leikmaður Stólanna á fyrri hluta tímabilsins gat ekki leikið.

Leikurinn byrjaði jafnt og liðin skiptust á körfum en heimamenn tóku fljótlega forystuna og voru mun sterkari í sínum aðgerðum.  Sérstaklega var varnarleikurinn öflugur og héldu þeir gestunum í 15 stigum í fyrsta leikhlutanum en skoruðu sjálfir 26.  Sama baráttan hélt áfram hjá heimamönnum í öðrum fjórðung á meðan Njarðvíkingar virkuðu hálf ráðalausir á köflum, voru að hitta illa og virtust ekki ráða við hraða leiksins.  Pétur Rúnar og Gerel Simmons stjórnuðu leiknum og fóru oft illa með vörn gestanna.  Staðan 47-31 í hálfleik og allt í blóma hjá heimamönnum.

Eins og í síðasta leik og reyndar oftar þá gáfu Tindastólsmenn verulega eftir í þriðja leikhluta.  Njarðvíkingar fundu lyktina af óöryggi heimamanna og sóttu grimmt að körfunni og tóku hvert sóknarfrákastið á fætur öðru þó hittnin væri ennþá ekki upp á 10.  Gestirnir sóttu jafnt og þétt á og það fór verulega um heimamenn á pöllunum þegar Chaz Calvaron lokaði leikhlutanum á þrist og kom muninum niður í 4 stig, 64-60.  Baráttan í varnarleik heimamanna hafði dottið algerlega niður í leikhlutanum og Njarðvík skoraði 29 stig, aðeins 2 minna en í öllum fyrri hálfleik. Hannes Ingi byrjaði fjórða leikhluta á einum silkimjúkum þrist og Viðar bætti 2 stigum við strax í kjölfarið og kom forystunni aftur í 9 stig fyrir heimamenn.  Pétur bætti þristi við og Tindastóll náði 72-62 forystu en Njarðvík hafði þó alls ekki sagt sitt síðasta.  Með áhlaupi skoruðu þeir næstu átta stig á rúmri mínútu og skyndilega var þetta orðinn tveggja stiga leikur.  Þannig hélst spennan nokkuð áfram en þegar Friðrik Þór setti opinn þrist og kom muninum í 7 stig þegar 4:21 lifðu leiks virtust heimamenn ná betri tökum á sínum leik og öðlast þá trú sem þurfti til að klára dæmið. Mario minnkaði muninn í 81-77 þegar 3 mínútur voru eftir en Helgi Rafn Viggósson smellti þrist í andlitið á gestunum á móti strax í næstu sókn og þakið ætlaði af Síkinu.  Fyrirliðinn ekki mikið í þristadeildinni en þegar þeir koma eru þeir sætir og heimamenn sigldu sigrinum örugglega í höfn á lokamínútunum.

Gríðarlega sterkur sigur hjá heimamönnum án síns sterkasta leikmanns.  Gerel Simmons átti fantagóðan leik, skilaði 33 stigum og 5 fráköstum auk þess sem hann varði glæsilega 2 skot gestanna á lokamínútunum.  Jaka Brodnik og Pétur Rúnar voru líka öflugir með 17 stig hvor og gamla brýnið Jasmin Perkovic reif niður 13 fráköst.  Gestirnir rústuðu þó heimamönnum undir körfunni lengst af og tóku alls 24 sóknarfráköst sem gerði þeim kleift að halda sér inni í leiknum.  Mario (26 stig, 10 fráköst) og Chaz (22 stig, 6 stoðsendingar) héldu gestunum á floti lengst af en þeir þurfa meira framlag frá fleirum til að standa í Tindastól þegar á reynir.  Logi endaði með einungis 8 stig og Ólafur Helgi og Maciej (FG 0-8) voru stigalausir sem er einfaldlega ekki nógu gott.
Tindastóll heldur í við toppliðin með sigrinum og rykkja aðeins frá Njarðvík en liðin voru jöfn að stigum fyrir leikinn

Mynd: Pétur Rúnar skorar yfir Mario

Viðtal:

Umfjöllun, viðtal og myndir: Hjalti Árna