Gerald Robinson leikmaður Hauka var rekinn úr húsi fyrir grófa villu í leiknum á móti KR í 13. umferð Dominos deildarinnar 9. janúar síðastliðinn. Hann braut á Matthíasi Orra Sigurðarsyni þegar lítið var eftir af leiknum og fékk útilokun úr leiknum, eða svokallaða U-villu. Ef allt hefði verið eðlilegt átti Gerald skv. lögum að fara strax í leikbann á móti Grindavík í 14. umferð en c-liður 1. mgr. 13. gr. reglugerðar um aga- og úrskurðamál er svohljóðandi:

c) Hafi einstaklingi verið vísað af leikvelli eða keppnisstað fyrir alvarlega grófan leik eða ósæmilega framkomu skal aga- og úrskurðarnefnd úrskurða viðkomandi í eins eða tveggja leikja bann. Við slíka ákvörðun skal nefndin líta til ásetnings, afleiðinga og hver sé brotaþoli. Sé sama einstaklingi aftur vísað af velli vegna sömu ástæðna og að framan greinir innan sama leiktímabils skal hann sæta tveggja eða þriggja leikja banni. Við slíka ákvörðun skal nefndin líta til ásetnings, afleiðinga og hver sé brotaþoli. Ef einstaklingi er oftar vísað af leikvelli vegna sömu ástæðna og að framan greinir innan sama leiktímabils er nefndinni heimilt að úrskurða viðkomandi í tímabundið leikbann í öllum flokkum.

Úrskurður aganefndar var hins vegar svohljóðandi:

Úrskurður nr. 39/2019-2020.

Með vísan til ákvæðis c. liðar 1. mgr. 13. gr. reglugerðar um aga- og úrskurðarmál skal hinn kærði, Gerald Robinson, leikmaður Hauka, sæta áminningu vegna háttsemi sinnar í leik Hauka og KR í Domino’s deild karla, sem leikinn var 9. janúar 2020.

Aganefndin vísaði í rétta lagagrein en ruglaðist í dómsorðinu svo Gerald fékk ekki leikbann heldur þurfti að sæta áminningu.  Aganefndinni var bent á mistökin samdægurs en þar sem búið var að birta dóminn. Því tók Gerald ekki út bannið gegn Grindavík sem liðið átti að mæta í 14. umferð.

Liðin voru þá á svipuðum stað í deildinni og gat Grindavík komið sér uppað hlið Hauka með sigri. Haukar unnu hinsvegar leikinn sannfærandi í Grindavík 73-88 þar sem umræddur Gerald Robinson var öflugur með 19 stig og 9 fráköst.

Í gær tók Gerald út bannið þegar Haukar heimsóttu Fjölni. Fjölnismenn leiddu lungan úr leiknum en Haukar stigu upp án Robinson í lokin og unnu góðan sigur.

Samkvæmt reglugerðum KKÍ fara leikmenn sem fá brottrekstur í leik ekki sjálfkrafa í bann í næsta leik eftir á. Aga- og úrskurðarnefnd þarf að úrskurða menn í bann og því geta mistök eins og þessi orðið til.

Ljóst er að mistök úrskurðarnefndar hafa skapað nokkra umræðu og samkvæmt heimildum Körfunnar eru Grindvíkingar langt frá því að vera sáttir við vinnubrögð nefndarinnar. Fyrirfram hefðu margir talið leikinn gegn Grindvík erfiðari fyrir Hauka sem léku þá með Robinson sem hefur verið öflugur í vetur. Því hefur verið velt upp hvort Haukar hafi grætt á þessum mistökum? En þær systur “ef” og “hefði” eru þær einu sem geta svarað því núna.