Mikið er um að vera í Domino’s deildunum í kvöld, en leikið er í bæði Domino’s deildum karla og kvenna.

Í Domino’s deild karla fara KR-ingar í heimsókn í Þorlákshöfn, þar sem þeir mæta Þórsurum. KR sitja í fimmta sæti deildarinnar og Þórsarar í því áttunda, en einungis munar fjórum stigum á liðunum.

Í Grafarvogi tekur botnlið Fjölnis á móti Haukum. Fjölnismenn komust í vikunni í undanúrslit Geysisbikarsins eftir frækinn sigur á Keflavík, og því verður fróðlegt að sjá hvort Grafarvogsbúar nái að taka þá frammistöðu inn í deildarkeppnina.

Loks verður Suðurnesjaslagur í Njarðtaksgryfjunni, þar sem Njarðvík tekur á móti Grindavík. Njarðvík siglir lygnan sjó í fjórða sæti deildarinnar, en Grindvíkingar eru í því níunda, tveimur stigum frá sæti í úrslitakeppni deildarinnar.

Í Domino’s deild kvenna fer fram einn leikur, þegar Snæfell tekur á móti Skallagrími í Vesturlandsslag. Borgnesingar eru í bullandi baráttu um sæti í úrslitakeppni deildarinnar, en Snæfell sitja sem fastast í sjötta sæti deildarinnar.

Allir ofangreindir leikir hefjast klukkan 19:15.