Þrír leikir fara fram í Domino’s deild karla í kvöld. Á Akureyri taka heimamenn í Þór Akureyri á móti nöfnum sínum úr Þorlákshöfn. Fyrir leik eru Norðanmenn í 11. sæti deildarinnar, en geta með sigri komist úr fallsæti. Þorlákshafnar Þórsarar eru hins vegar í bullandi baráttu um sæti í úrslitakeppni deildarinnar. Leikurinn hefst klukkan 18:30 í Höllinni á Akureyri.

Á sama tíma taka Grindvíkingar á móti Haukum í Mustad-höllinni. Haukar sigla lygnan sjó um miðja deild, en Grindvíkingar eru í 9. sæti.

Stórleikur kvöldsins fer hins vegar fram í Mathús Garðabæjar höllinni í Garðabæ, þar sem Stjörnumenn taka á móti Tindastóli. Með sigri komast Stjörnumenn aftur einir á topp deildarinnar, en Tindastóll geta styrkt stöðu sína í þriðja sætinu með sigri. Þessi leikur hefst 20:15 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Þá fara þrír leikir fram í 1. deild karla. Höttur tekur á móti Selfyssingum á Egilsstöðum, Álftnesingar taka á móti Snæfelli og Hamar tekur á móti Skallagrími í Hveragerði. Þessir leikir hefjast allir klukkan 19:15.