Jannetje Guijt, hollenskur leikmaður Hauka, var mjög kát eftir sigur Hafnfirðinga í æsispennandi leik gegn Keflavík á Ásvöllum í kvöld. Leikurinn fór að lokum 80-73.

„Mér fannst við þurfa á þessum sigri að halda,“ sagði Jannetje um leikinn gegn toppliði Keflavíkur. „Við erum nálægt toppliðunum og komum öflugar inn í þennan leik. Þetta var næs sigur!“

Haukar leiddu með fjórtán stigum í byrjun fjórða leikhluta og virtust ætla að sigla sigrinum í höfn snemma. Annað kom hins vegar á daginn og Keflavík tókst með öflugari vörn að minnka bilið milli liðanna. Þær voru ekki langt frá því að taka leikinn og Sja, eins og Jannetje er jafnan kölluð af liðsfélögum sínum, leist ekkert á blikuna. „Það kom smá skjálfti í okkur undir lokin og við töpuðum boltum sem við áttum að passa betur upp á. Við leyfðum þeim að keyra á körfuna og fengum dæmdar á okkur heimskulegar villur,“ sagði hún um lokakafla leiksins. „Þær breyttu spilinu hjá sér og það tók okkur smá tíma að aðlagast því en það tókst að lokum.“

Liðið úr Hafnarfirði hefur núna á innan við mánuði unnið þrjú toppliðin í Dominosdeild kvenna eftir að hafa byrjað tímabilið hrikalega illa. „Tímabilið byrjaði illa en núna vitum við að við getum unnið öll lið og getum meira að segja látið finna fyrir okkur í úrslitakeppninni,“ sagði Sja um viðsnúningin. Þar skipti miklu máli samkvæmt henni að fá Randi Brown inn í liðið. „Hún fer sterkt á körfuna og dregur athygli til sín. Við höfum fleiri möguleika sóknarlega núna, erum grimmari og erum að spila vel saman,“ sagði Sja um bandarískan leikmann liðsins.

„Núna höfum við trú á okkur sjálfum, það skiptir mestu!“

Hollendingurinn knái, sem hafði bestu innkomuna af bekknum fyrir Hauka í kvöld, var uppfull af krafti og taldi að þessi sigurleikjaruna væri mögulega aðeins byrjunin. „Við byrjuðum að trúa þessu þegar við fórum að vinna nokkra leiki í röð og nú held ég að við trúum því að við getum komist í úrslitarimmuna og unnið hana!“

Hver veit? Kannski hefur Sja lög að mæla. Lið hennar hefur sýnt að þær geta unnið öll lið í deildinni.