Það var mikið undir þegar að ÍR-ingar mættu í Origo höllina í kvöld. 4 stig á milli liðanna og með tapi hefðu Breiðhyltingar geta sogast niður í fallbaráttuna. Það reyndist þó ekki raunin, algert hrun Valsmanna í síðari hálfleik á meðan ÍR gengu á lagið. Lokatölur: 75 – 85 og ÍR sennilega alveg lausir við falldrauginn.

Stigahæstur ÍR-inga í dag var Evan Singletary með 29 stig en Frank Aron Booker skoraði 17 fyrir Valsmenn.

Tölfræðin lýgur ekki

Bæði hraðaupphlaupsstig(fastbreak points) og annarartilraunarstig(2nd chance points) voru eign ÍR í dag. En þegar allt var talið saman var munurinn á milli liðanna ekki mikill. Eini tölfræðiþátturinn sem að ÍR-ingar skora mun betur í eru fráköstin. Breiðhyltingar höfðu betur í frákastabaráttunni 47-38. Þeir skutu að vísu betur fyrir utan þriggja stiga línuna. (35% – 26%)

Hrun í seinni

Valsmenn voru algerlega heillum horfnir eftir flottan annan leikhluta þar sem þeir náðu mest 14 stiga forystu. Fyrstu mínúturnar í þriðja leikhluta voru allt í lagi hjá heimaliðinu en svo fór allt í skrúfuna. ÍR fór að setja skotin sín og Valsmenn svöruðu því með því að taka trekk í trek fáránlegar ákvarðanir í sókninni. Ekki var vörnin samt skárri í leikhlutanum sem lauk 30-13 fyrir gestina.

Svitabandið

Evan Singletary brást svo illa við getuleysi sinna liðsfélaga í öðrum leikhluta að hann kastaði af sér svitabandinu sem hann ber yfirleitt stoltur. ÍR vinnur svitabandslausar mínútur með næstum 30 stigum.

Það var samt ekki það sem breyttist. Það sem breyttist að mati undirritaðs var það að ÍR héldu áfram að vinna í sínum sóknarleik en Valsmenn höfðu engin svör í vörninni. ÍR neyddu Ragnar Nathanaelsson til þess að verjast í miklu svæði uppi á topp og það skilaði sér í galopnum þriggja stiga skotum. Þarna reyndist nýr leikmaður ÍR, Roberto Kovac virkilega vel. Þá var Colin Pryor mjög góður í leikhlutanum.

Staðan

Valsmenn eru komnir í virkilega vond mál. Þór Akureyri nartar í hælana á þeim og það þarf ekkert mikið að gerast til þess þeir séu komnir í fallsæti. ÍR hins vegar styrkti stöðu sína sem úrslitakeppnislið.

Tölfræði leiksins
Myndasafn: Guðlaugur Ottesen