Kvennalið Hauka vann í kvöld lið Keflavíkur í æsispennandi leik sem varð nokkuð tæpur á kafla í lokafjórðungnum. Haukum tókst hins vegar að bægja hættunni frá og unnu Keflavík 80-73.

Heimaliðið úr Hafnarfirði leiddi leikinn fyrstu mínúturnar en eftir u.þ.b. fimm mínútur tóku Keflvíkingar við sér og náðu forystunni. Keflavík náði að halda sér fyrir ofan Hauka á stigaskorinu þar til á lokamínútum fyrri hálfleiksins þegar að sveit Ólafar Helgu, þjálfara Hauka, seig eilítið fram úr. Staðan í hálfleik var 44-41 og von á meiri spennu í seinni hálfleik.

Liðin skiptust á að skora fyrstu mínúturnar í þriðja leikhluta þangað til að Ólöf Helga tók leikhlé til að brýna sínar stelpur. Það gekk eins og í sögu því að Haukar tóku 12 stiga áhlaup næstu fimm mínúturnar á meðan að leikmenn Keflavíkur gátu aðeins svarað með 1 stigi. Staðan var því orðin 61-47 þegar tíu mínútur lifðu leiks.

Keflavík sneri genginu við í fjórða fjórðungnum og komust skuggalega nálægt Haukum sem gátu skyndilega ekki passað upp á boltann gegn kæfandi varnartilburðum gestanna og hittu illa. Keflvíkingar komust svo nálægt að vera örfáum stigum frá heimastúlkum en komust því miður ekki nær. Haukar skoruðu á hárréttum augnablikum undir lokin og Keflavík gat ekki unnið upp muninn. Því fór leikurinn, eins og áður sagði, 80-73.

Rýtings-þristur Þóru

Vendipunkturinn í viðureign Hauka og Keflavíkur í kvöld var líklegast í einni seinustu sókn leiksins. Keflavík voru fimm stigum frá Haukum og Emelía Ósk Gunnarsdóttir var nýbúin að hitta úr sjötta vítaskotinu sínu í röð á rúmri mínútu. Gestirnir höfðu séns og þurftu aðeins að ná stoppi.

Þristur Þóru Kristínar Jónsdóttur úr hægra horninu í næstu sókn gerði út um þá von. Skotið kom muninum úr 5 stigum í 8 þegar tæpar tuttugu sekúndar voru eftir á klukkunni og þó að Keflavík náði sér í þrjú vítaskot og setti þau öll niður í næstu sókn var ekki nægur tími eftir til að ná góðum skotum á körfuna.

Slíkur þristur eins og sá sem Þóra Kristín setti er stundum kallaður rýtingsþristur (eða á ensku „dagger three“) enda stakk hún rýtingi í hjarta Keflvíkinga sem höfðu fram að því eygt von með að stela sigrinum.

Lykillinn

Margar í liði Hauka voru þrælöflugar í leiknum en lykillinn að sigri þeirra í kvöld var að mati undirritaðs Jannetje Guijt. Hún var mjög virk í vörninni, setti öll þriggja stiga skotin sín þrjú í leiknum (100% nýting fyrir utan þriggja) og átti stoðsendinguna örlagaríku á Þóru Kristínu sem setti þristinn og innsiglaði leikinn. Jannetje skoraði 18 stig af bekknum, spilaði frábæra vörn og endaði með hæstu plús/mínus-tölfræði síns liðs, þ.e.a.s. Haukar unnu með 11 stigum meðan hún var inn á.

Hjá Keflavík var Emelía Ósk Gunnarsdóttir mjög fín með 20 stig, 6/9 í skotum utan af velli og 8/8 í vítaskotum. Þrátt fyrir að skora lítið var Daniella Morillo ágæt með 10 stig, 11 fráköst, 8 stoðsendingar og 8 stolna bolta.

Kjarninn

Haukar hafa þá unnið öll lið í deildinni og eru þar með í hópi þeirra þriggja liða sem hefur tekist það; Valur, Keflavík og nú þær. Miðað við gengið undanfarið og að hafnfirska liðið eigi ennþá landsliðsefnið Evu Margréti Kristjánsdóttur inni, þá gætu þær vel blandað sér í toppbaráttuna. Þær standa jafnar að stigum með Skallagrími og eru í góðu færi á að komast upp fyrir Borgnesinga ef þær ná að vinna áfram í næstu umferðum.

Keflavík voru aftur eilítið ólíkar sjálfum sér í kvöld og hafa enn ekki náð að hrista af sér jólaslenið. Í síðustu þrem leikjum þeirra hafa þær tapað tveimur og sá sem vannst var ekki ýkja sannfærandi, sigur gegn Snæfell í framlengingu. Þær verða að fara gera betur í næstu leikjum ef að þær vilja ekki eiga á hættu að detta út úr topp fjögur. Keflavík hefur sem stendur unnið ellefu leiki á tímabilinu, aðeins einum sigri meira en Skallagrímur og Haukar, sem eru fyrir neðan þær í stöðutöflunni.

Viðtöl eftir leik

Jannetje Guijt: Þetta var næs sigur!
Emelía Ósk: Ennþá í smá jólafríi, virðist.