Haukar heimsóttu Fjölnispilta í Grafarvoginn í 15. umferð deildarinnar í kvöld. Haukar voru ekki alveg tilbúnir í fyrsta leik á nýju ári og töpuðu á Akureyri en hafa unnið tvo góða sigra síðan þá. Saga Fjölnis hefur hins vegar verið harmi þrungin allt tímabilið og liðinu hefur verið gersamlega fyrirmunað að slysast til að vinna leik. Þau undur áttu sér reyndar stað í annarri keppni, þ.e. bikarkeppninni, bara núna síðastliðinn mánudag! Andstæðingarnir voru hvorki meira né minna en félagar Fals frá Kef City! Hvort Falur hafi verið að innheimta feita skuld skal ósagt látið en sigurinn var svo óvæntur að fregnir af honum bárust ekki fjölmiðlum landsins fyrr en daginn eftir.

Spádómskúlan: Spádómskúlan veit allt um álög og önnur furðufyrirbrigði. Álögum Fjölnispilta hefur nú verið aflétt og þoku þeirri sem fylgt hefur liðinu hefur verið blásið á brott. Heimamenn vinna því loksins leik í deildarkeppninni 85-82 eftir geggjaða baráttu.

Byrjunarlið:  

Fjölnir: Robbi, Srdan, Jere, Moses, Orri

Haukar: Hjálmar, Flen, Kári, Emil, Breki

Gangur leiksins

Fjölnismenn litu út fyrir að vera álagalausir í byrjun og tóku strax forystuhlutverkið að sér. Robbi byrjaði vel sóknarlega og það sem meira var leit vörnin alveg hreint ágætlega út og tókst heimamönnum meira að segja að kveikja í klukkunni. Flen var þó ótvírætt stærsta nautið á vellinum og hélt gestunum nálægt. Heimamenn komust í 15-9 eftir svakalegt skrímslatroð frá Jere og þristur frá Tomma Tomm gerði það að verkum að allt leit út fyrir að liðið myndi ekki umbreytast aftur í froskinn ljóta. Staðan 22-15 eftir einn.

Heimamenn héltu uppteknum hætti í öðrum leikhluta og Israel Martin var búinn að fá sig fullsaddan í stöðunni 30-19 og tók leikhlé. Það hafði ekkert að segja, Jere hamraði boltann yfir Kára skömmu síðar og Kúlan rífandi ánægð með gang mála. Um miðjan leikhlutann náðu Fjölnismenn 16 stiga forystu, 40-24 og útlitið hreinlega að verða ansi svart fyrir Hafnfirðinga. Breki Gylfa setti þá afar þýðingarmikla þriggja stiga körfu eins og Arnar Björns myndi orða það. Gestirnir náðu svo að mjaka sér áfram nær og voru aðeins 10 stigum undir í hálfleik, 44-34. Vel sloppið fyrir gestina en að sama skapi grátlegt fyrir Fjölnismenn að halda ekki a.m.k. 15 stiga forystu fram í hléið. 

Gestirnir virtust hafa tekið þá stórskynsamlegu ákvörðun að mæta bara í seinni hálfleik og vinna leikinn! Aðferðin var einföld – spila grimma vörn, vinna boltann og fá svolítið af auðveldum körfum. Engu líkara var en að Fjölnismenn hefðu tekið ákvörðun í hálfleik sem rímaði við þá hugmynd gestanna og töpuðu 8 boltum í leikhlutanum. 8! Haukar skoruðu 11 fyrstu stig leikhlutans og komust yfir 44-45 þegar aðeins 3 mínútur voru liðnar af seinni hálfleik! Að leikhlutanum loknum höfðu Haukar skorað 29 stig en Fjölnir 11. Þvílík andskotans hörmung hefur sjaldan sést þó margur slakur kaflinn hafi litið dagsins ljós hjá botnliðinu á tímabilinu. Staðan 55-63 og endurkoma heimamanna hljómaði eins og körfuboltalegur ómöguleiki.

Fyrstu 4 stig fjórða leikhluta voru líka gestanna. Liðin skipust svo á körfum sem gerði auðvitað lítið fyrir heimaliðið. Þegar tæpar 7 voru eftir af leiknum lét Falur bresta á með svæðisvörn eins og oft áður á tímabilinu. Það var svo sem ágæt hugmynd að reyna það en það heppnaðist ekki að þessu sinni. Haukar tóku enn frekar en áður sóknarfráköst þegar þau voru í boði og/eða fengu auðveldar körfur og opin skot. Ekki tókst gestunum að stinga heimamenn af en leikurinn varð aldrei spennandi enda fór munurinn aldrei niður fyrir 9 stigin. Heimamenn skriðu smátt og smátt aftur í álög sín og kannski skiljanlegt að fáir Fjölnismenn hafi andlegan styrk til að sitja undir þessu í stúkunni. Lokatölur 83-94.

Menn leiksins

Emil Barja ber umtalsverða ábyrgð á betri vængjaslætti Haukanna þessi dægrin. Hann setti 15 stig, tók 6 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Flen er svo á góðri uppleið og var með nautslega tvennu, 26 stig og 21 frákast, þar af 8 sóknarfráköst.

Hjá Fjölni var Moses atkvæðamestur með 18 stig og 8 fráköst. Fyrir utan það var Tommi Tomm eini ljósi punkturinn en hann átti sinn besta leik síðan fyrir löngu, setti 16 stig af bekknum.

Kjarninn

Fjölnismenn voru í raun sjálfum sér líkir í kvöld. Fínn fyrri hálfleikur og spilamennskan á köflum flott og skemmtileg, Jere að troða og allt að gerast! Þriðji leikhluti var svo í raun bara algerlega til skammar. Vissulega spilaði andstæðingurinn góða og grimma vörn en það er samt algerlega fáránlegt að lyppast niður eins og barinn hundur, þjakaður af lærðu hjálparleysi. Undirritaður dregur það næstum því í efa að liðið hafi í alvöru sigrað Kef City í bikarnum – getur einhver sannað það??

Haukar þurftu bara einn góðan leikhluta til að vinna þennan leik. Þó svo að Fjölnismenn hafi (sennilega) spilað ágætlega í fyrri hálfleik virkuðu gestirnir svolítið daufir og kraftlitlir fram að hálfleik. Í þriðja leikhluta var vörnin hins vegar komin í hærri gír og liðið komið með yfirhöndina eftir örfáar mínútur! Með talsverðri virðingu fyrir Fjölnispiltum er undirritaður orðinn þrælspenntur yfir því að sjá Hauka takast á við lið í einu af efstu sætum deildarinnar…

Myndasafn (Bára Dröfn)

Umfjöllun: Kári Viðarsson