Haukar fengu KR-inga í heimsókn í 13. umferð deildarinnar í kvöld. Liðin eiga það sammerkt að meiðsli hrjá marga leikmenn en þau eru jafnframt með mjög breiða leikmannahópa bæði tvö. Liðin hafa einnig átt ansi misgóða leiki í vetur og sitja hlið við hlið í 5. og 6. sæti deildarinnar. En hvað sem meiðslum og öðru líður voru tvö dýrmæt stig í boði í kvöld.

Spádómskúlan: Kúlan hefur alls ekki verið hrifin af Haukaliðinu á tímabilinu. Vesturbæingar hafa líka haft góð tök á Hafnfirðingum (eins og öllum reyndar) og Haukar myndu ekki vinna þó Ingi Þór byrji fyrir KR-inga. Lokatölur 81-86. 

Byrjunarlið:  

Haukar: Robinson, Flen, Kári, Emil, Haukur

KR: Brilli, Matti, Helgi, Craion, Dino

Gangur leiksins

Heimamenn byrjuðu allbetur og Flen og Robinson átu gestina undir körfunni í byrjun. Þeir höfðu báðir sett 6 stig í stöðunni 12-7 og Ingi tók leikhlé. Hléið virtist hafa farið í það að stilla fallbyssurnar á rétta fjarlægð og KR-ingar röðuðu þristum hver á fætur öðrum og jöfnuðu leika í 18-18. Breki sá hins vegar til þess undir lok fyrsta leikhluta að halda heimamönnum yfir með eina þristi Hauka fram til þessa – staðan 21-20. KR-ingar voru þarna 4/7 í þristum og þá eiga lið að vera með forystu. Einnig má benda á að Haukavörnin var mjög þétt þrátt fyrir að 20 stig eru í það mesta í einum fjórðungi.

Heimamenn byggðu smátt og smátt upp smá forystu í öðrum leikhluta. Varnarleikurinn var áfram mjög góður og Íslandsmeistararnir glotruðu frá sér boltanum ítrekað, bæði  vegna klaufaskaps og fyrrnefnds varnarleiks. Þegar 6:14 voru eftir af fyrri hálfleik tók Ingi aftur leikhlé enda staðan 32-25 og töpuðu boltarnir orðnir 11 talsins. Haukar leiddu 39-30 þegar skammt var til hálfleiks en gestirnir áttu kærkomin 5 stig í lokin og máttu prísa sig sæla með 39-35 stöðu í hálfleik. Í leikhlutanum hittu liðin tæplega hafið en á móti verður að hrósa varnarleik liðanna, ekki síst heimamanna.

Brilli opnaði seinni hálfleik með flottu flotskoti og minnkaði muninn í 2 stig. Þó svo að lesendur séu á þessum tímapunkti pistilsins að míga á sig úr spennu kemur hér alger spennuspillir því KR-ingar komust aldrei nær en þetta í leiknum. Vörn gestanna missti einbeitinguna reglulega í leikhlutanum og Haukar fengu auðveld sniðskot undir körfunni. Umtalsvert ólíkt meisturunum og þegar 4 mínútur voru eftir af þriðja stóðu leikar 54-41 og  þremur mínútum síðar 59-46. Ekki mjög algeng staða og í meiralagi ónotaleg fyrir KR-inga. En aldrei skal vanmeta hjarta meistaranna segir einhveres staðar og Brilli og Kristó sáu til þess að aftur enduðu KR-ingar leikhluta með 5 stigum í röð, staðan 59-51.

Gestirnir þekkja það lítið að tapa og uppgjöf auðvitað ekki í kortunum. Matti náði að minnka muninn með þristi í 65-61 um miðjan fjórða leikhluta og Brilli andartaki síðar í 68-64. En heimamenn svöruðu að bragði, Flen átti körfu góða og Emil Barja setti svo tvo ílanga nagla í kistuna með gullfallegum þristum. Þá voru aðeins 2 mínútur eftir og staðan 79-66. Eftir umtalsvert magn af þriggja stiga skotum frá Brilla enduðu leikar 83-75. Frábær sigur Hauka og kærkominn eftir tapið fyrir norðan. 

Leikurinn var ágæt skemmtun en áhorfendur eiga reyndar klárlega inni einn geggjaðan og spennandi eftir ójafna og jafnvel átakanlega leiðinlega leiki að undanförnu.

Menn leiksins

Emil Barja var frábær í þessum leik. Hann er vanur að nenna að spila vörn og gera það frábærlega og engin undantekning var á því í kvöld. Til viðbótar skoraði hann 12 stig og 6 þeirra kláruðu leikinn (jafnvel að stattarinn hafi svikið Emil um einn þrist…?). Hann tók 7 fráköst og gaf 7 stoðsendingar í ofanálag. Geggjaður.

KR-megin var Craion bestur en samt var hann svolítið að vandræðast á köflum í leiknum. Hann skilaði 19 stigum, tók 13 fráköst og gaf 4 stoðsendingar.

Kjarninn

Haukar hræktu á kúluna með góðri frammistöðu í kvöld. Þrátt fyrir afleita þriggja stiga nýtingu (5-34) unnu þeir þennan leik að lokum nokkuð örugglega og úrslitin voru sanngjörn. Varnarleikurinn var mjög góður allan leikinn og baráttan til fyrirmyndar enda unnu þeir frákastabaráttuna stórt. Emil Barja bendir á í viðtali eftir leik að fingraför Israel Martin eru kannski loks að taka yfir fingraför Ívars og fullyrðir að liðið sé á uppleið. Munu Haukar toppa á réttum tíma og fara langt þetta tímabilið?

Undirritaður fullyrðir að meiðsli eru enn eina ferðina að plaga meistarana þó Ingi vilji auðvitað ekki nota það sem afsökun eins og ræfilstuska. En það skiptir auðvitað máli að Jakob, Jón, Bjössi, Siggi og jafnvel fleiri sem ég er að gleyma voru ekki með. Ef KR-ingar eru í ,,égerdauður“-leiknum fá þeir frábæra aðstoð frá meiðsladraugnum! Eins og staðan er akkúrat núna virðast meistararnir ekkert vera á leið upp töfluna en þeim til huggunar voru þeir ekkert ofar í henni að loknu síðasta tímabili…

Tölfræði leiksins

Umfjöllun: Kári Viðarsson