Haukar tóku á móti Grindavík í 8-liða úrslitum Geysisbikarsins í gærkvöldi. Liðin höfðu líka mæst á Ásvöllum á seinasta tímabili í 16-liða úrslitum bikarsins þar sem Grindavík hafði næstum því unnið Haukana. Leikurinn var langt frá því að vera spennandi að þessu sinni og Haukar unnu sannfærandi 81-54 sigur.

Heimastúlkur tóku strax forystuna eftir 30 sekúndur í leiknum með þristi Þóru Kristínar Jónsdóttur og juku forskotið aftur með þristi frá Lovísu Björtu Henningsdóttur 30 sekúndum síðar. Það að Haukar skyldu opna stigaskorið með þriggja stiga skotum gaf forsmekkinn af því hvernig leikurinn myndi þróast.

Vörn og sókn Grindavíkur var stamur í leiknum og einkenndist af seinum varnarfærslum, slökum sendingum og illa ráðnum skotum. Haukar gengu á lagið og skoruðu allir byrjunarliðsmenn liðsins í fyrsta leikhluta, sem þær unnu með fimmtán stigum, 28-13.

Grindavík prufaði svæðisvörn og ýmsar varnarfærslur en lítið gekk og Haukar héldu áfram að raða þristum og Jóhann Árni, þjálfari Grindavíkur, varð svo heitur á einum tímapunkti að hann braut þjálfaraspjaldið sitt. Mikill hiti í honum sem hann reyndi að setja í stelpurnar sínar í næsta leikhléi.

Það gekk ekki og hann varð að horfa upp á stelpurnar sínar tapa eftirlifandi mínútum hálfleiksins 14-5. Staðan í hálfleik var orðin 50-22 og útlitið svart.

Gestirnir komu grimmari inn í seinni hálfleikinn og náðu að taka áhlaup á fyrstu mínútum. Það hjálpaði þeim aðeins að Randi Brown, bandarískur leikmaður Hauka, meiddist á fæti eftir tæpar tvær mínútur. Grindavík náði 11-2 áhlaupi áður en að Haukar gátu tekið við sér.

Haukar tóku sitt eigið 10 stiga áhlaup næstu fjórar mínútur þriðja leikhlutans og gerðu þar með út um leikinn.

Seinasti leikhlutinn var ekki mikið í gangi, bekkir liðanna fengu að spreyta sig mikið og leiknum lauk með svipuðum mun og í hálfleik. Lokastaðan var eins og áður sagði 81-54.

Lykillinn

Þóra Kristín var frábær fyrir Hauka í kvöld, stýrði leiknum vel, fann liðsfélaga sína og var á eldi fyrir utan þriggja stiga línuna (6/10 í þristum). Hún skoraði 24 stig, tók 5 fráköst, gaf 8 stoðsendingar og stal 4 boltum. Lovísa Björt var líka góð fyrir Hauka en hún setti fimm þrista í sex tilraunum (83.3.% nýting) og lauk leik með 17 stig.

Hjá Grindavík var fátt um fína drætti, en Jorda Airess Reynolds skoraði 9 stig, tók 8 fráköst, gaf fjórar stoðsendingar og stal 4 boltum.

Tölfræði sem vakti athygli

Þriggja stiga nýting Hauka var mjög góð í kvöld, enda settu þær 15 þrista í 33 tilraunum (45.5% nýting). Þar að auki tóku þær 17 sóknarfráköst sem gáfu þeim 14 stig úr aukasóknum.

Áhugaverðast var mögulega að Grindavík tapaði 22 boltum, þar af voru 16 þeirra stolnir boltar. Að tapa boltanum og hleypa andstæðingunum beint í hraðaupphlaup getur verið mjög varasamt.

Næsti leikur liðanna

Haukar fara þá í pottinn með KR og Val og bíður úrslitanna úr leik ÍR og Skallagríms í kvöld. Grindavík hefur lokið keppni í ár í Geysisbikarnum.

Næsti leikur liðanna í deildarkeppninni verður gegn hvert öðru næsta miðvikudag í Mustad-höllinni í Grindavík.

Grindvíkingar fagna eflaust tækifærinu til að fá að hefna fyrir þennan leik sem fyrst. Þjálfari þeirra, Jói, talaði einmitt þannig eftir leik og það verður örugglega góður leikur þar í vændum.

Tölfræði leiks

Viðtöl eftir leik

Ólöf Helga: Þessar stelpur eru ógeðslega flottar, láta mig líta vel út trekk í trekk.
Jóhann Árni: Gríðarleg vonbrigði hvernig við nálgumst þennan leik í byrjun