Guðmundi hent í bað í 1. leikhluta

Keflvíkingar áttu ekki í miklum erfiðleikum með að afgreiða nágranna sína í Grindavík í Blue höllinni í kvöld. Lokatölur 80-60 í fremur bragðdaufum leik heilt yfir.

Eftir steindauðar þrjár mínútur fór allt í háaloft þegar Guðmundi Jónssyni var vikið af velli. Við það lifnaði heldur betur yfir kofanum og menn fóru að spila körfubolta með alvöru ástríðu og stolti. Grindavík var mest 5-14 yfir en Keflvíkingar réttu úr kútnum með þá Domynikas Milka og Dean Williams í fararbroddi og leiddu með 6 stigum í hálfleik, 42-36.

Síðari hálfleikur var eign heimamanna sem unnu 3. leikhlutann 23-7 og höfðu lítið fyrir því að klára slappt grindvískt lið sem spilaði án Jamals Olasawere sem tók út leikbann en honum var svo sagt upp störfum í dag svo liðið er nú í leit að eftirmanni hans. Það munar um minna fyrir Grindavík að vera aðeins með 1 spilandi erlendan leikmann og gætu þeir hæglega náð sér í 2 erlenda leikmenn á næstu vikum til að þétta raðirnar báðum megin við þriggja stiga línuna. 

Bestir á vellinum

Það kemur sjálfsagt öllum á óvart að Domynikas Milka var yfirburðarmaður á vellinum, skilaði 25 stigum og 19 fráköstum auk þess að spila fína vörn og vera úti um allt í öllum aðgerðum heimamanna. Þá var Dean Williams líka frábær með 22 stig og 14 fráköst. 

Hjá Grindavík var Sigtryggur Arnar Björnsson með 18 stig og 4 stoðsendingar og Ingvi Þór Guðmundsson með 17 stig og 11 fráköst. 

Atvikið

Eftir sléttar 3 mínútur lenti Valdas Vasylius með Guðmund Jónsson á sér eftir að skipt hafði verið á skrínum. Guðmundur fiskaði í kjölfarið ruðning á Valdas og duttu þeir báðir í gólfið við það. Guðmundur virtist þá klípa Valdas í axlirnar/hálsinn svo uppúr sauð. Liðsfélagar beggja blönduðu sér í málið en eftir að dómarar leiksins höfðu skoðað myndband af atvikinu komust þeir að þeirri niðurstöðu að Guðmundur fengi óíþróttamannslega villu fyrir klípuna og tæknivillu fyrir orðaskipti sín og Daníels þjálfara Grindavíkur í kjölfarið. Honum var því vísað út úr húsi fyrir vikið. Fram að þessu hafði leikurinn verið afar bragðdaufur og engin stemmning i húsinu. Það breyttist heldur betur við þetta og húsið tók vel við sér út allan fyrri hálfleikinn, báðum megin í stúkunni. 

Er orðið heitt undir Daníel?

Sóknarleikur Grindvíkinga er í einu orði sagt dapur til að orða það pent. Þegar undirritaður sá þessi lið mætast í 2. umferð í Grindavík við sömu aðstæður (Jamal Olasawere ekki með þá heldur) var það á orði margra hversu óagaður leikur Grindavíkur væri. Nú, 11 leikjum síðar, hefur lítið breyst og þeir hæfileikaríku leikmenn sem liðið hefur innanborðs annaðhvort frjósa við að framkvæma leikplan þjálfarans eða ákveða það fyrirfram að þeir ætli ekki að fylgja því og ríða kokhraustir inn í sólsetrið á eigin sjálfstrausti og hugmyndafræði. Sama hver sannleikurinn er, þá er það að verða deginum ljósara að Daníel Guðni Guðmundsson er að valda því illa að þjálfa þetta kúrekalið sem mætir á fjalirnar í hverri viku. Hver sóknin er hinni villtari og ákvarðanatökur snargalnar og einstaklingsmiðaðar á löngum köflum. Það efast enginn um að Daníel kann sitt fag og er þjálfari góður en hluti af því að búa til gott lið er að hafa hemil á stórum egóum. Honum vantar „sinn mann” á gólfið. Þennan Þorleif Ólafsson karakter sem er tilbúinn að axla ábyrgð og vera rödd þjálfarans á gólfinu. Spurning hversu lengi Grindvíkingar eru tilbúnir að bíða eftir að sá maður stígi upp innan þeirra raða, hvort að hann komi í formi erlends leikmanns eða hvort að þeir sjái hag sínum best borgið með að skipta um mann í brúnni. Liðið mun þó án efa bæta við sig 1-2 leikmönnum á næstu dögum og ef vel tekst til er aldrei að vita nema Grindvíkingar finni takt sem hægt er að dansa við.

Umfjöllun // Sigurður Friðrik Gunnarsson