Æsispennandi leikur átti sér stað í kvöld í Dalhúsum í Grafarvogi, sannkallaður botnslagur. Þór Akureyri heimsótti Fjölnismenn og náði sigri með minnsta mögulega mun, 93-94.

Fyrir leikinn var ljóst að þetta væri líklega stærsti leikur tímabilsins hjá báðum liðum. Fjölnir myndi eiga innbyrðis viðureignina á Þór Akureyri með sigri og ættu enn möguleika á að halda sér uppi ef þeir ynnu leikinn í kvöld. Þór Akureyri hefur verið á góðri sigurgöngu undanfarið og gat lyft sér betur upp úr botnsætunum tveimur með sigri á Grafarvogsliðinu.

Fjölnir hóf leik með því að taka forystuna en fljótlega eftir það sigu Þórsarar fram úr með röð af auðveldum körfum. Mantas Virbalas, miðherji Þórs, fékk nokkrar auðveldar körfur ásamt fleirum í liði gestanna og áður en langt var liðið höfðu þeir tíu stiga forystu á Fjölnismenn.

Þór datt verulega úr takti varnarlega í öðrum leikhluta eftir nokkrar mínútur og náðu einhvern veginn að spandera 18 stiga forskoti! Fjölnismenn settu upp í sína alkunnu svæðisvörn og fundu þannig einhvern veginn öryggi í sókninni. Þeir skoruðu á seinustu sjö mínútum hálfleiksins 32 stig gegn 9 hjá Þór! Algjör viðsnúningur sem leiddi til þess að heimamenn leiddu með fimm stigum í hálfleik, 52-47.

Svo virðist sem að Fjölnir hafa slakað á í hálfleikshléinu því að þeir höfðu misst Þór aftur fram úr sér eftir tvær mínútur, 57-58. Næstu sex mínúturnar voru æsispennandi og liðin skiptust á forystunni með nær hverri skoraðari körfu. Fjölnir gat hins vegar slitið sig aðeins frá Þór seinustu tvær mínútur þriðja leikhlutans og leiddu með sjö stigum í lok hans, 78-71.

Gestirnir, leiddir af Hansel Atencia, unnu muninn upp fljótlega í lokafjórðungnum og áfram héldu liðin að skiptast á að leiða leikinn. Leikmenn Fjölnis fóru að sýna þess merki að álagið væri að fara með þá, enda misstu þeir á lokakaflanum nokkrar stórar sóknir frá sér og Þórsarar gátu stolið sigrinum á lokasmetrunum með frábæru framlagi frá Terrence Motley. Hann átti risastuld og stoðsendingu seinustu mínútu leiksins ásamt því að skora seinustu körfuna til að vinna leikinn fyrir Þór Akureyri, 93-94.

Lykillinn

Hansel Atencia var lykillinn í sigri Þórsara í kvöld. Hann steig upp í fjórða leikhluta og skoraði nokkrar mikilvægar körfur á ögurstundu þrátt fyrir að hafa verið pínu slakur í skotnýtingunni framan af. Hann lauk leik með 25 stig, 4 fráköst og 3 stoðsendingar.

Viktor Moses var bestur í liði Fjölnis með 16 stig, 19 fráköst og 4 varin skot. Þrátt fyrir að vera ekki framlagshæstur var hann að mati undirritaðs sá hefði getað unnið leikinn fyrir Fjölni.

Vendipunkturinn

Í stöðunni 93-89 með 45 sekúndur til leiksloka misstu Fjölnismenn hausinn og töpuðu tveimur mikilvægum boltum, fyrst með töpuðum bolta hjá Jere Vucica sem leiddi til hraðaupphlaupssniðskots hjá Hansel Atencia og síðan með ennþá klaufalegri töpuðum bolta hjá Srdan Stojanovic er hann missti boltann frá sér aftur fyrir miðju (sem er ekki leyfilegt). Þannig komst Þór Akueyri í höggfæri og gat klárað leikinn á lokasekúndunni.

Með 0.2 sekúndur eftir á klukkunni og leikhlé reyndi Falur Harðarson, þjálfari Fjölnis, að setja eitthvað upp til að sigra á flautugjallinu. Þeir virðast hins vegar hafa klikkað illa á því vegna þess að það eina sem þeir fengu út úr kerfinu var skot sem var dæmt ógilt áður en Srdan Stojanovic gat sleppt því.

Tölfræðin segir sitt

Jafn leikur eins og þessi hefur yfirleitt lítið í tölfræðinni sem skilur liðin af, en eitt vakti athygli undirritaðs. Þórsarar skoruðu 17 stig úr töpuðum boltum Fjölnis, 8 stigum fleiri en Fjölnir í sömu tölfræðilínu. Fjölnir passaði augljóslega ekki nógu vel upp á boltann á ögurstundu.

Kjarninn

Norðanmennirnir eru áfram á sigurleikjagöngu og eru í bullandi séns að ná sér upp í botnsætunum tveim strax í næsta leik ef þeir geta unnið KR heima á Akureyri. Leikurinn verður eflaust þrælspennandi og hver veit hvernig fer? Í raun eru næstu þrír leikir Þórsara allir vinnanlegir ef þeir mæta rétt stemmdir, en þeir spila við KR og síðan Þór Þorlákshöfn heima á Akureyri og að lokum ÍR í Hertz-hellinum.

Von Grafarvogsdrengjanna um að halda sér uppi í úrvalsdeild karla eftir tímabilið er í mikilli hættu eftir þennan ósigur. Þeir eiga næst leik við KR í DHL-höllinni og eftir það tekur við fjögurra leikja runa við liðin sem eru í 6.-9. sæti í deildinni; Haukar, Grindavík, Þór Þorlákshöfn og svo ÍR.

Viðtöl eftir leik

Lárus: “Vorum stálheppnir að vinna þennan leik.”
Teddi: “Klúðrum honum bara sjálfir.”

Myndir: Bára Dröfn
Umfjöllun og viðtöl: Helgi Hrafn Ólafsson