Haukar heimsóttu Fjölnispilta í Grafarvoginn í 15. umferð deildarinnar í kvöld. Eftir að Fjölnir hafði leitt lungan úr leiknum stigu Haukar upp í seinni hálfleik og unnu 83-94 sigur.

Falur sá enga feita konu í Dalhúsum í kvöld, þrátt fyrir allt:

Ég veit ekki hvort ég eigi að þora að rifja það upp að þegar ég tók viðtal við þig síðast, sem var einmitt á móti Haukum í Hafnarfirði, þá líkti ég ykkur við Blikaliðið á síðasta tímabili…manstu eftir því?

Nei…

Það er gott! Ég var að tala um að þið væruð með býsna spennandi lið en hafði áhyggjur af því að þetta myndi kannski enda eins og hjá Blikum…því miður lítur þetta kannski pínu lítið þannig út núna…

…Breiðablik fór ekki í fjögurra liða úrslit í bikarnum…!

Mikið rétt! Þið getið alla vega huggað ykkur við það…

Jájá, við erum ekki að ná úrslitum í deildinni, það er klárt. Við spiluðum þennan leik ekki nógu vel heilt yfir. Í síðasta leik í bikarnum þá náðum við hins vegar að spila mjög vel í 40 mínútur…en svo dettum við bara aftur í sama vonda gírinn.

Undarlegt, ég hélt kannski að þið mynduð ná að taka smá sjálfstraust út úr bikarleiknum…og fyrri hálfleikur var svo sem fínn. Þið hefðuð í raun átt að vera kannski svona 16 stigum yfir í hálfleik…

…jájá, við vorum mest 14 stigum yfir…

 …en svo er þetta í raun bara alger linkind og jafnvel ræfilsskapur í þriðja leikhluta…

Já við vorum ekki nógu sterkir, hvorki andlega né á boltanum í þriðja, við töpuðum boltanum átta sinnum í þriðja leikhluta sem er alveg fáránlegt…Ég veit ekki í hvaða tölu við enduðum en við vorum ekki að stjórna sóknarleiknum nógu vel og því fór sem fór í þriðja leikhluta.

Sá leikhluti gerir má segja útslagið, fjórði leikhluti var í raun bara nokkuð jafn…

Jájá, hann var það. Við vorum 10 stigum yfir þegar þriðji byrjaði en 8 stigum undir þegar honum var lokið. Það er 18 stiga sveifla og það er bara mjög lélegt.

Einmitt. En hversu mikinn áhuga hefur Fjölnir á því að vinna svo sem eins og 1-2 leiki í viðbót, eða meira, í deildinni?

Hversu mikill áhugi?? Það er mjög mikill áhugi á því, við erum ekkert hættir…

Er Fjölnisliðið ekki fallið?

Þetta er ekki búið fyrr en feita konan syngur – ég sé enga feita konu hérna inni!

Þetta fannst undirrituðum fyndið og gott svar og fékk um leið agalegt samviskubit yfir því að spyrja meistara Fal svona heimskulegrar spurningar! Svarið var sannfærandi og undirritaður ráðlegggur liðunum sem eiga Fjölni eftir að taka leikinn alvarlega…

Viðtal: Kári Viðarsson