Haukar unnu góðan sigur á Íslandsmeisturum síðustu sex ára í 12. umferð Dominos deildar karla í kvöld.

Emil Barja leikmaður Hauka átti frábæran leik fyrir Hauka og var tekinn tali eftir leik:

Frábær sigur og geggjaður leikur hjá þér! Flottar tölur, 12-7-7 ef þú hefur ekki séð það!

Já þakka þér fyrir! Ég var ekki búinn að skoða það…

Það er fín tölfræði…af hverju gerir þú þetta ekki oftar bara?! Hvað er að þér???

Þetta er góð spurning! Það fer auðvitað svolítið eftir því við hverja maður er að spila og svona…núna í endann voru þeir svolítið að falla af mér svo maður var opinn í þristunum og ég setti tvo þarna í lokin…

Mikið rétt, þú kláraðir þetta með þeim má segja…

Jájá, þeir þurftu að falla af einhverjum, við erum með mikið af góðum skotmönnum þannig að ég var fyrir valinu og ég bara svaraði því með því að setja þessi skot…

Það er ekkert annað að gera. En mig langar að spyrja þig út í ástandið á þér…ég hef heyrt einhvers staðar að þú hefur verið hálfmeiddur lengi…vegna bakmeiðsla, er það ekki rétt?

Já ég hef verið í bakmeiðslum núna í nokkur ár, ég er ekki með brjósklos en ég er með einhverja útbungun í hryggjarlið. Það gerir það að verkum að maður er svolítið upp og niður, maður kemur stundum í leiki og er bara hálfur maður, þá vantar sprengjuna og vantar að geta komist upp að körfunni og klárað. Svo er ég betri í öðrum leikjum.

Já…það vita allir sem hafa prófað að spila körfu með bakverk að það er ekki beint auðvelt! 

Mikið rétt, það þarf að nota bakið mjög mikið!

Einmitt…þegar maður kemst illa í nærbuxur þá er körfuboltaiðkun vesen! En að leiknum – mér fannst vörnin hjá ykkur vera rosalega öflug hjá ykkur í kvöld. Ertu ekki ekki sammála mér um það?

Algerlega, við höfum líka verið að vinna mikið í vörninni. Hún er búin að vera mjög léleg, sérstaklega fyrri partinn af tímabilinu…

…Israel Martin kannski líka þekktur fyrir að vera svolítið varnarsinnaður… 

Já, svo má líka benda á að flestir í liðinu hafa verið með sama þjálfarann í 15 ár og svo kemur Martin inn með allt aðrar áherslur og það tekur svolítinn tíma til að komast inn í leikinn. Við erum á réttri leið og við erum að komast á réttan stað. Við erum farnir að sjá hvað var vitlaust í byrjun og við erum á leiðinni upp!

Akkúrat. Þó það vanti í KR-liðið þá er þetta hörkulið og góður sigur í kvöld…

Já algerlega og það vantar í okkar lið líka. Hjálmar er meiddur og Haukur hefur lítið æft þar sem hann var að eignast barn núna fyrir stuttu…

…og Kiddi M líka rétt að detta inn…

…já hann er bara nýbyrjaður að æfa þannig að það hefur verið fámennt um jólin á æfingum.

Einmitt, en bara glæsilegur sigur og vonandi liggur leiðin áfram upp…

Klárlega, leiðin er bara upp!