Haukar lögðu Þór í kvöld í 16. umferð Dominos deildar karla. Karfan spjallaði við leikmann Þórs að leik loknum.

Hérna er meira um leikinn

Davíð Arnar, betur þekktur sem Dabbi kóngur, spilaði mjög vel fyrir sitt lið, barðist t.a.m. af miklum krafti og hetjulega gegn Golíat undir körfunni, en það dugði ekki í kvöld:

Mér finnst þið vera eitt skemmtilegasta liðið í deildinni og í raun það lið sem er hvað neðst í deildinni miðað við spilamennsku. Þið hafið sýnt mjög fína hluti í mörgum leikjum í vetur…

…já…það koma þessir kaflar þar sem við erum ekki að spila nógu vel. Þessir kaflar eru bara aðeins of langir og taka aðeins of mikið af okkur. Sem dæmi í KR-leiknum í síðasta leik, við komum okkur í 20 stiga holu sem er bara alltof djúp hola. Við erum að spila fínan körfubolta á köflum en vondu kafllarnir eru of langir.

Jújú – en þessir kaflar voru ekki mjög áberandi langir í þessum leik…það sem kannski gerði útslagið var að Kári losnaði í einhver augnablik þarna í fjórða…

Já, klárlega, hann setti einhverja 3 þrista þarna undir lokin og á sama tíma vorum við ekki að ná að skora hinum megin.

Þið voruð að ströggla talsvert sóknarlega á þeim tíma…hvert var vandamálið?

Við vorum bara ekki að hreyfa boltann rétt í sókninni, við stóðum svolítið allir fyrir utan að horfa og bíða eftir því að einhver myndi gera eitthvað…

…þið duttuð svolítið í þann pytt að taka næsta mögulega þriggja stiga skot…?

…einmitt, í staðinn fyrir að fá boltann inn á blokkina, fá smá hreyfingu inn og út og láta boltann ganga, þeir fengu bara að standa í vörn og hvíla sig í fjórða leikhluta og fara svo í sókn af fullum krafti og drepa okkur.

Þið voruð aftur á móti að sýna okkur alveg frábæran sóknarleik á löngum köflum hérna í fyrri hálfleik…

…sérstaklega í öðrum leikhluta, boltinn gekk fáránlega vel, við vorum að dræva rétt, finna réttu opnanir og hreyfa boltann…

Einmitt, og ég verð að minnast á sóknina þegar þú fékkst aukasendinguna eftir geggjaða boltahreyfingu og settir galopinn þrist…alveg gullfallegur þristur!

Akkúrat, við fengum fullt af svona sóknum í fyrri hálfleik, í seinni vantaði að finna þessar holur til að keyra inn og fá boltann aftur út…að ná hreyfingunni af stað.

Þið hafið unnið aðeins 2 leiki síðustu 2 mánuði….þetta er hundfúlt…?

Þetta hafa svo sem ekki verið stór töp en við erum að tapa og það vantar eitthvað í lok leikja, þessar síðustu fimm mínútur, eitthvað drápseðli til að þora að sækja á körfuna, þora að gera hlutina, ekki bara standa og horfa á næsta mann og vona að hann geri eitthvað.  

Ég gæti samt trúað því að það sé þrátt fyrir allt ágæt stemmning í hópnum, þið ætlið auðvitað að halda ykkur inn í úrslitakeppninni og þið getið alveg verið stórhættulegir…?

Jájá! Við ætlum bara að taka einn leik í einu eins og gamla góða klisjan segir og nú þurfum við bara að fara að sigra leiki. Þeir þurfa bara að fara að detta okkar megin, annars erum við ekkert að fara í úrslitakeppnina. Við þurfum bara að girða okkur, vinna nokkra leiki í röð og tryggja okkar sæti í úrslitakeppninni.

Eitt að lokum – hvernig er að vera kallaður Kóngur útum allt endalaust?!

Maður er bara orðinn vanur því!

Já er það? Það sprengir ekkert egóið?!

Neineinei! Það er bara að halda sér á jörðinni og halda sínu striki!

Sagði meistari Dabbi kóngur og það væri algert slys verði Davíð og Þórsarar ekki með í úrslitakeppninni.