Breiðablik tók á móti Vestra í Smáranum í kvöld í öðrum leik liðanna í 1. deild karla. Leikurinn var í járnum alveg fram í lokin en Breiðablik sótti sigurinn með sterkum lokaleikhluta og unnu 104-98.

Gangur leiksins

Ísfirðingar byrjuðu leikinn allt í lagi en pössuðu ekki nægilega vel upp á boltann gegn virkri vörn Breiðabliks. Blikar fengu ítrekað körfur úr töpuðum boltum Vestra og höfðu forystu eftir fyrstu fimm mínúturnar.

Skiptingar heimamanna breyttu aðeins flæðinu hjá Breiðablik, enda skipti Pétur Ingvarsson þjálfari Blika fjórum mönnum út af í einni andrá. Toni Jelenkovic kom þá inn á fyrir Vestra og setti tíu stig á seinustu þrem mínútum fyrsta leikhluta. Vestri leiddi því eftir fyrstu tíu mínútur með fjórum stigum, 28-24.

Blikar héldu áfram að spila þétt á Vestra í öðrum leikhlutanum voru að stela lélegum sendingum eða neyða gestina í slakar ákvarðanir. Pétur Már sá sig tilneyddan að taka leikhlé og ræddi aðeins við strákana sína. Einbeitingarleysi gætti sín hjá gestunum að vestan.

Vestri náði að koma sér aftur inn í leikinn með því að herða vörnina og hreyfa boltann betur í sókninni. Liðin hófu að skiptast á forystunni og í hálfleik leiddi Vestri með einu stigi, 52-51.

Seinni hálfleikinn hófst með látum hjá Vestra sem náðu fljótlega 10 stiga forystu með góðri sókn og ágætri vörn. Blikar voru þó fljótir að ná vopnum sínum og góðir að refsa gestunum þegar þeir gerðu mistök.

Einbeitingarleysi fór aftur að gæta sín hjá Vestra og Blikar komu muninum niður í fimm stig áður en Pétur Már tók annað leikhlé. Það hafði ekki tilætluð áhrif og ísfirska liðið hélt áfram að tapa boltum með lélegum sendingum. Þeir leiddu þó með tveimur stigum í lok þriðja leikhluta, 79-77.

Heimamenn tóku forystuna nokkuð fljótlega í lokafjórðungnum með nokkrum góðum sóknum og settu Vestra í erfiða stöðu. Gestirnir héldu áfram að klikka en að þessu sinni var það oftar á varnarvelli og Blikar gengu á lagið.

Leikurinn stöðvaðist í langan tíma um miðbik fjórða leikhlutans þegar dómarar þurftu að fara yfir skýrslu og tölfræðina til að ákvarða hvort að Hilmar Pétursson hefði brotið af sér fjórum eða fimm sinnum í leiknum. Ritaraborðið hafði misskilið einhvern villdudóm í þriðja leikhluta og málið leystist þannig að Hilmar fékk að halda áfram leik eftir talsverða töf.

Vestri gat illa skorað en voru samt jafnir að stigum með Blikum þegar tvær mínútur lifðu leiks. Eftir það sleit Breiðablik sig nægilega frá til að gera þetta erfitt fyrir Ísfirðinga og þrátt fyrir frækin skot undir lokin gátu Vestramenn ekki minnkað muninn og leikurinn fór því 104-98 fyrir Breiðablik.

Hvað vann leikinn?

Blikar voru ýgari varnarlega og náðu að setja einhverja línu í leiknum sem fór í taugarnar á Vestramönnum og olli því að þeir misstu stundum einbeitinguna.

Árni Elmar Hrafnsson, Larry Thomas og Hilmar Pétursson stigu líka upp í lokaleikhlutanum og settu mikilvægar körfur til að leiða lið sitt til sigurs.

Lykillinn

Larry Thomas var bestur hjá Blikum í kvöld, skoraði 24 stig, tók 8 fráköst, gaf 9 stoðsendingar og stal 4 boltum. Þar að auki var hann með hæsta plús/mínus-tölfræði sinna manna, +16 stig. Aðrir góðir voru Árni Elmar með 19 stig og Hilmar Péturs með 18 stig.

Hjá Vestra var Toni Jelenkovic stigahæstur með 29 stig. Nemanja Knezevic var líka ágætur með 23 stig og 12 fráköst.

Kjarninn

Blikar eru þá með jafnir að stigum í deildinni með Hamri, sem vann Hött í kvöld á Egilsstöðum í kvöld. Deildin er ennþá nokkuð spennandi og Blikar gætu alveg komist ofar á töfluna ef þeir halda dampi.

Vestri mun líklegast ekki komast upp fyrir Hamar eða Breiðablik, en verða samt að halda vel á spöðunum til að tryggja sér ákjósanlega stöðu í úrslitakeppninni.