KR tók á móti Skallagrím í DHL-höllinni í kvöld í 11. umferð Dominosdeildar kvenna. KR byrjaði betur og þrátt fyrir góða endurkomu hjá Skallagrím þá voru heimastúlkur betri í seinni hálfleik og unnu að lokum 83-60.

Gangur leiksins

KR byrjaði leikinn ágætlega og tók strax forystuna á meðan að Skallagrímur átti í erfiðleikum með að koma sér í rétta gírinn. Það bætti ekki úr skák að Keira Robinson fékk tæknivillu án nokkurrar viðvörunar fyrir að því er virtist litlar sakir. Skallagrímsstúlkur voru því undir með tólf stigum eftir fyrstu tíu mínúturnar.

Annar leikhlutinn gékk út á að liðin skiptust á að taka áhlaup. Skallagrímur tók loks við sér og gerði fjórtán stiga áhlaup til að jafna stöðuna í 28-28. Þá vöknuðu KR-ingar aftur og skoruðu næstu átta stig í röð. Síðan skoruðu Borgnesingar níu stig í röð! Að lokum settu KR átta stig án svars og fyrri hálfleik lauk 44-37 fyrir heimastúlkum.

Skallagrímur hóf seinni hálfleikinn ekki ósvipað og þann fyrri. Þær voru seinar út úr búningsklefanum (komu út þegar 30 sekúndur voru í að leikurinn hæfist á ný) og seinar í gang í sjálfum þriðja leikhlutanum. KR-ingar voru ekkert sérstakar heldur í þriðja en gátu þó skorað tveggja stafa tölu, sem er meira en Skallagrímsstúlkur gátu gert. Staðan var 60-45 áður en lokaleikhlutinn byrjaði.

Benni Gumm, þjálfari KR, var kannski helst til fljótur að skipta reynsluminni leikmönnum sínum inn á í lokafjórðungnum því að Skallagrím náði að saxa aðeins á forskotið, en þó ekki nema um einhver sex til átta stig. Heimastúlkurnar hristu þetta af sér og breikkuðu bilið aftur undir lokin þannig að lokastaðan varð 83-60 fyrir KR.

Af hverju vann KR?

Vörn KR setti allt úr skorðum hjá Skallagrím sóknarlega. Það ásamt góðu framlagi frá bekknum þeirra gerði út um leikinn löngu áður en að lokaflautan gall.

Breiddin skipti máli

Skallagrímur nýtti bekkinn eiginlega ekki neitt í kvöld og það var erfitt fyrir þær að halda í við djúpan bekk KR-inga sem stóð sig í mjög vel og skoraði 24 fyrir KR.

Fjórir leikmenn hjá Skallagrím spiluðu 35 mínútur eða meira á meðan að aðeins Hildur Björg Kjartansdóttir og Sanja Orazovic spiluðu eitthvað eins og fullan leik hjá KR.

Tölfræði leiksins

Eins og áður sagði skipti bekkurinn miklu máli, enda skoraði bekkur KR 24 stig gegn aðeins fimm stigum hjá bekk Skallagríms. Þar fyrir utan var skotval Skallagríms ekki nógu gott, enda hittu gestirnir aðeins úr 33% skota sinna utan af velli og gátu aðeins hitt 8/28 í þristum (29% nýting).

Kjarninn

Skallagrímur mætti einfaldlega of seint til leiks í fyrsta og þriðja leikhluta og virtust þreyttar og hægar gegn ýgu varnarliði KR.

Þá á KR næst leik gegn Fjölni 7. desember í 16-liða úrslitum Geysisbikarsins á meðan að Skallagrímur fer beint áfram í 8-liða úrslit bikarsins.

Í deildarkeppninni mætir KR næst Grindavík í Mustad-höllinni 11. desember á sama tíma og Skallagrímur heimsækir Keflavík.

Benni Gumm: Breiddin alltaf að verða betri og betri

Benni Gumm fékk gott framlag af bekknum í kvöld.

Benni var sáttur eftir að hans stúlkur sýndu Skallagrím í tvo heimana á heimavelli KR-inga, DHL-höllinni. KR byrjaði leikinn vel en missti aðeins dampinn eftir fyrsta leikhlutann.

“Mér fannst við byrja leikinn vel, svo þegar við fórum að rótera í fyrsta og öðrum þá datt þetta svolítið niður,” sagði Benni um áhlaupið sem Skallagrímur tók til að jafna stöðuna eftir 14 mínútur. “Þá sérstaklega takturinn í vörninni, 26 stig í öðrum leikhluta er ekki í lagi. Þetta er næstum helmingur allra stiga þeirra í leiknum!”

Eldræðan var ekki tekinn inn í klefa heldur á bekknum fyrir lok fyrri hálfleiksins, að sögn Benna. Það hafði líka til ætluð áhrif. “Við spiluðum góða vörn allann seinni hálfleikinn,” sagði hann um seinni 20 mínútur leiksins. KR leyfði aðeins 23 stig hjá Skallagrím í seinni hálfleik.

Bekkurinn kom sterkur inn í leiknum og Benni var m.a.s. sáttur við að Dani Rodriguez, bandaríski leikstjórnandinn sinn, hefði komist í villuvandræði. “Já, ógeðslega ánægður með fjórar villur Dani því að þegar hún fór út af þá bættum við bara í. Það er auðvelt að koma inn á í vænlegri stöðu og missa eitthvað niður. Þjálfarar vilja sjá vörn og baráttu af bekknum og þær sýndu mér það,” sagði hann og taldi upp leikmenn eins Alexöndru Evu Sverrisdóttur, Sóllilju Bjarnadóttur og fleiri.

“Breiddin er alltaf að verða betri og betri,” sagði Benni Gumm að lokum enda stóðst bekkurinn prófið í kvöld.

Guðrún Ósk: Vorum litlar í okkur.

Guðrún þurfti meira frá fleirum í kvöld.

Guðrún Ósk Ámundadóttir var allt annað en ánægð eftir tap sinna stúlkna í kvöld fyrir KR. Hún var þó fljót að blása á það hún treysti ekki bekknum sínum. “Jú, ég treysti öllum leikmönnum mínum til að spila en við áttum bara erfiðan leik,” sagði Guðrún, en hún spilaði aðeins sex leikmönnum sínum fyrstu 30 mínútur leiksins.

“Þegar við erum á áhlaupi þá fannst mér erfitt að vera gera einhverjar breytingar á liðinu. Við byrjuðum mjög illa og vorum bara ekki tilbúnar,” sagði hún um slaka byrjun Skallagríms. Liðið náði að koma til baka í öðrum leikhluta en gat ekki haldið dampinum í seinni hálfleik.

“Þær spila hrikalega fast á okkur, mjög aggressívt og við fengum enga dóma. Við hættum þá bara, vorum litlar í okkur og fórum að sætta okkur við léleg skot,” sagði Guðrún um slæma skotnýtingu liðsins.

Eini ljósi punkturinn í leiknum samkvæmt Guðrúnu var annar leikhlutinn. “Fullt af góðum skotum í öðrum leikhluta. Þá gekk líka allt vel,” sagði hún.