Stjarnan tók á móti liði Fjölnis í kvöld í seinasta leik liðanna fyrir jólafrí. Fjölnismenn skutu Stjörnunni skelk í bringu með glæsilegri skotsýningu í fyrsta leikhluta en Stjarnan girti sig og skilaði að lokum sjö stiga sigri, 95-88.

Gangur leiksins

Leikurinn hófst með nokkuð eðlilegum hætti, Stjarnan að spila góð vörn og að gera Fjölni erfitt fyrir. Fjölnismenn hættu þó ekki og virtust finna sjálfsöryggið í skotum sínum snemma. Stjarnan fór að gera mistök varnarlega og endaði leikhlutinn þannig að Fjölnir leiddi með nítján stigum eftir tíu mínútur, 21-40!

Stjarnan komu inn í annan leikhlutann yfirvegaðir og mjötluðu niður forskotinu hægt og bítandi. Fjölnir fór að missa smá sjálfstraust en gátu þó skorað með ágætri frammistöðu erlendra leikmanna sinn inn á milli. Heimamenn létu samt ekki undan og með stöðugu álagi gátu þeir komið muninum niður í átta stig fyrir hálfleikshléið, 48-56.

Fjölnir sýndu vítavert gáleysi í byrjun þriðja leikhluta, en þeir mættu algjörlega á hælunum fyrstu mínúturnar. Áður en tvær mínútur voru liðnar af seinni hálfleik höfðu Garðbæingar skorað fjórtán stig í röð, þrátt fyrir að Falur Harðars, þjálfari Fjölnis, tæki leikhlé og ræddi af alvöru við sína menn. Eftir aðrar þrjár mínútur voru Stjörnumenn yfir með átta stigum, 71-63. Þá skelltu Fjölnismenn í svæðisvörn og gátu aðeins fundið vopnin sín. Stjarnan hafði þó eins stiga forystu í lok þriðja, 75-74.

Gestirnir úr Grafarvogi náðu að taka forystuna í smá stund í byrjun fjórða leikhluta og virtust ætla að veita Stjörnunni sinn þriðja ósigur á tímabilinu. Þá tók Hlynur Bærings til sinna ráða; setti þrist í fyrstu tilraun og bætti svo við sniðskoti og vítaskoti að auki. Fjölnismenn reyndu hvað eftir annað að rétta sinn hlut, en gátu það ekki á lokasprettinum og urðu því að sætta sig við tíunda tapið sitt á tímabilinu og því níunda í röð.

Stjarnan vann leikinn eins og áður sagði 95-88 eftir æsispennandi leik sem var í járnum fram á seinustu mínúturnar.

Bestir í kvöld

Bakvarðateymi Stjörnunnar, Ægir Þór Steinarsson og Nick Tomsick, voru öflugir; þeir sameinuðust í 49 stig (Nick með 31 stig og Ægir Þór með 18), gáfu 14 stoðsendingar (Ægir með 9 og Nick með 5) og voru illviðráðanlegir. Nick setti stór skot til að halda Stjörnunni nálægt Fjölni og Ægir sprengdi upp leikinn með leiftursnöggum hraðaupphlaupum og hárnákvæmum sendingum.

Hlynur Bæringsson lét aldeilis finna fyrir sér og minnstu munaði að hann endað með tröllatvennu. Hann lauk leik með 18 stig og 21 fráköst; 40 framlagspunktar á heildina.

Hjá Fjölni var Viktor Moses bestur með 24 stig, 13 fráköst, þrjá stolna bolta og tvö varin skot.

Tölfræðin lýgur ekki

Fjölnismenn voru funheitir frá þriggja stiga línunni í fyrsta leikhluta og hittu úr sjö af átta þristum sínum (87,5% nýting). Þeir snöggkólnuðu allverulega það sem eftir lifði leiksins og hittu aðeins úr þremur af næstu 26 þriggja stiga tilraunum sínum (11,5% nýting á þrjátíu mínútum).

Allir í jólafrí

Þá halda bæði liðin í jólafrí og geta reynt að laga sinn leik fyrir næstu umferð. Stjarnan trónir á toppi deildarinnar með níu sigra og tvö töp á meðan að Fjölnir er í fallsæti með einn sigur og tíu töp.

Fjölnir heimsækir næst Valsmenn í Origo-höllina 5. janúar kl.18:30 og sama kvöld fær Stjarnan Þór Þorlákshöfn í heimsókn í Mathús Garðabæjar-höllina kl.20:15.

Myndir og tölfræði

Myndasafn (Bára Dröfn)
Tölfræði leiksins

Arnar Guðjóns: Fjölnir voru frábærir.

Arnar Guðjónsson sparaði ekki hrósið á andstæðinga sína eftir hörkuleik

Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar, var sáttur við sigur sinna manna á góðu liði Fjölnis í kvöld. „Fjölnir voru frábærir, bara ógeðslega góðir,“ sagði Arnar um það hve erfitt hefði reynst að stöðva skotsýningu Fjölnis á köflum.

Hann hefur sagt eitthvað við sína leikmenn í leikhlutaskiptunum, enda tóku Stjörnumenn sig á og brúuðu bilið hægt og rólega í öðrum leikhluta. En hvað ætli hann hafi sagt? „Man ekki nákvæmlega hvað það var, en við ræddum aðeins maður á mann vörnina okkar og hvernig við værum að dekka vegg og veltuna þeirra,“ sagði hann um leikhléið.

Stjarnan reyndi nokkur varnartilbrigði í öðrum leikhluta og skellti m.a.s. í smá svæðisvörn á stuttum kafla. „Mjög stutt í svæðisvörninni. Smá örþrifaráð, þurftum að bregðast einhvern veginn við,“ sagði Arnar um það.

Fjölnir setti upp í svæðisvörn í þriðja leikhluta eins og þeir hafa oft gert áður. Stjarnan var undirbúin og hafði aðeins æft sókn gegn slíkri vörn í vikunni. „Já, vorum tilbúnir í svæðisvörnina,“ sagði Arnar en fannst sínir menn reyndar hafa mátt leysa hana betur. „Við náðum samt að hitta nógu vel til að þeir færu úr henni,“ sagði hann en það dugði til og Stjarnan fór frá leiknum með sigur.

Þá eru liðin farin í jólafrí og Stjarnan er enn án bandarísks leikmanns eftir að Jamar Akoh þurfti að yfirgefa liðið vegna heilsufarsástæðna. Ætli Kani verði komin fyrir áramót? „Ja, nú er bara að fara klára málin svo við getum fagnað hátíð ljóss og friðar,“ sagði Arnar léttur í bragði en vildi ekki gefa meira upp um leikmannamál sín að svo stöddu.

Falur Harðars: Með því besta sem við höfum spilað í vetur.

Falur Harðarsson sá margt jákvætt í leik sinna manna.

„Heilt yfir er ég mjög sáttur með þennan leik. Þetta er með því besta sem við höfum spilað í vetur,“ sagði Falur Harðarsson, þjálfari Fjölnis, um frammistöðu sinna manna í kvöld. Þeir spiluðu mjög vel en mættu betra liði Stjörnunnar. „Stjarnan er með mjög gott lið, það verður að halda því til haga,“ sagði hann.

Fjölnir byrjuðu leikinn mjög vel en áttu í miklu basli með Stjörnuna eftir því sem að leið á leikinn. „Við töpuðum þessu helst á hraðaupphlaups vörninni okkar, þar voru flest mistökin okkar,“ sagði Falur og benti á að Ægir Þór Steinarsson, leikstjórnandi Stjörnunnar, hefði reynst Fjölni erfiður. „Hann er fljótur upp með boltann og ef hann fær glufu þá fer hann alla leið.“

Stjarnan byrjaði leikinn verr en náði fljótlega að ná upp muninum með nokkuð mörgum körfum í röð. Falur hafði samt ekki miklar áhyggjur af því. „Það er bara körfubolti, þetta er leikur áhlaupa,“ sagði hann og benti á að hans menn hefðu verið með fáranlega nýtingu í fyrsta leikhluta, sjö af átta í þristum.

Falur vildi kenna öðru um að hans menn hefðu misst móðinn aðeins á köflum. „Ég hef þjálfað Keflavík og ég hef þjálfað Fjölni núna. Það er alveg svart og hvítt hvernig meðhöndlun liðin mitt fær þegar ég er að þjálfa Fjölni og þegar ég hef þjálfað Keflavík,“ sagði hann og var þá að tala um dómgæsluna. „Allir vafadómar fóru Stjörnunni í vil,“ sagði hann og benti á ákveðna villu á sinn mann, Srdan Stojanovic, í frákastabaráttu í byrjun seinni hálfleiks. „Maður fór yfir bakið á honum en hann fékk villuna. Ég er að tala um svona dóma.“

Að lokum er spurt hvort og þá hvað Fjölnismenn muni breyta í jólafríinu. Það stendur ekki á svörum hjá Fal: „Við verðum betri.“