Keflavík lagði Skallagrím fyrr í kvöld í 12. umferð Dominos deildar kvenna, 69-63. Eftir leikinn er Keflavík í 2.-3. sæti deildarinnar ásamt KR , á meðan að Skallagrímur er fjórum stigum fyrir neðan, í 4.-5. sætinu með Haukum.

Það voru gestirnir úr Borgarnesi sem byrjuðu leik kvöldsins betur, leiddu eftir fyrsta leikhluta með 4 stigum, 13-17. Undir lok fyrri hálfleiksins tóku Keflavíkurkonu þó aldeilis við sér. Leyfðu bara 3 stig í öðrum leikhlutanum á meðan að þær settu 17 sjálfar. Þegar að liðin héldu til búningshebergja í hálfleik var Keflavík því 10 stigum yfir, 30-20.

Í upphafi seinni hálfleiksins létu heimakonur svo kné fylgja kviði. Bættu við forystu sína í þriðja leikhlutanum og voru 15 stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 55-40. Í honum gerðu þær svo nóg til þess að sigla að lokum nokkuð öruggum 6 stiga sigurleik í höfn, 69-63.

Atkvæðamest fyrir heimakonur í leiknum var Daniela Wallen Morillo með 18 stig, 15 fráköst og 7 stoðsendingar. Fyrir gestina úr Borgarnesi var það Emilie Sofie Hesseldal sem dróg vagninn með 28 stigum, 18 fráköstum, 4 stoðsendingum og 4 stolnum boltum.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Myndir, viðtöl / SBS