Tindastóll vann góðan sigur á Grindavík í lokaumferð Dominos deildar karla í körfuknattleik fyrir jólafrí í Síkinu í kvöld.


Það var góð stemning í Síkinu í kvöld þegar Grindavík kom í heimsókn.  Eftir vonbrigði síðasta leiks var greinilegt að leikmenn Tindastóls vildu sýna sínar bestu hliðar og ná lestinni á sporið fyrir jólafrí.

Leikurinn fór fjörlega af stað og liðin skiptust á körfum og heimamenn áttu í nokkru basli með Valdas undir körfunni.  Þristar frá Viðari og Jaka komu heimamönnum í sex stiga forystu þegar rúmar 2 mínútur voru eftir af fyrsta leikhluta og Daníel tók leikhlé.  Arnar Björns kom til baka með þrist en Simmons, sem var mjög góður í fyrsta leikhluta, svaraði hinumegin og staðan 24-19 eftir fyrsta fjórðung.  Útlit fyrir spennandi leik.


Heimamenn í Tindastól voru þó ekki á því og byrjuðu annan leikhluta með 13-2 áhlaupi.  Daníel tók leikhlé og Björgvin Hafþór setti góðan þrist og Óli Óla annan áður en heimamenn tóku aftur á rás og náðu 19 stiga forystu með sjaldséðum þrist frá Helga Rafni og þakið ætlaði að rifna af Síkinu.  Grindavík kom aðeins til baka en 7 stig frá Simmons á síðustu 2 mínútum fyrri hálfleiks héldu forystunni og staðan var 57-38 í hálfleik.


Þriðji leikhluti hefur oft verið Tindastól erfiður eftir góða forystu í hálfleik og þeir gáfu vissulega aðeins eftir í upphafi.  Grindavík náði að minnka muninn í 12 stig en heimamenn áttuðu sig og Pétur Rúnar og Axel sáu til þess að munurinn hélst með góðum sprettum.  Tindastóll lokaði svo leiknum í raun með þrist frá Jaka í lok þriðja leikhluta og öðrum frá Simmons í upphafi þess fjórða og staðan orðin 89-64 sem var munur sem Grindavík var aldrei að fara að brúa.  Ingvi Þór svaraði reyndar með snöggum þrist en svo hægðist gríðarlega á stigaskorun liðanna og þegar 5 mínútur voru liðnar af fjórðungnum hafði hvort lið aðeins náð að setja 5 stig á töfluna.  Liðin skiptust svo á körfum lokamínúturnar og Arnar sá til þess að munurinn varð 18 stig í lokin með þrist á lokasekúndunum.
Lið Tindastól lék allt vel í kvöld en enginn þó betur en Gerel Simmons sem setti 31 stig og var að hitta feykivel, 7/8 tveggja stiga og 4/7 í þristum. 

Simmons er gríðarlega snöggur leikmaður og skildi varnarmenn Grindavíkur hvað eftir annað eftir í rykinu þegar hann skaust framhjá þeim.  Jaka Brodnik og Sinisa Bilic skiluðu 15 stigum hvor og Pétur Rúnar 17 í viðbót í góðum liðssigri þar sem 10 leikmenn náðu að setja stig á töfluna fyrir heimamenn.  Helgi Viggós var frábær í vörninni að vanda og endaði stoðsendingahæstur leikmanna á vellinum með 7 kvikindi sem er ekki algengt á þeim bæ.  Hjá gestunum var Arnar Björns frábær með 31 stig þrátt fyrir að fyrrum félagar hans tækju oft fast á honum í vörninni.  Ingvi Þór var líka að hitta ágætlega og endaði með 21 stig en heilt yfir vantaði töluvert upp á hjá gestunum á móti heimamönnum í stuði.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Umfjöllun, myndir, viðtöl / Hjalti Árna