Samkvæmt heimildum er bakvörðurinn efnilegi úr Grindavík, Ólöf Rún Óladóttir með slitið krossband í hægra hnéi. Varð leikmaðurinn fyrir meiðslunum á dögunum við æfingar í Grindavík.

Samkvæmt fregnum mun hún gangast undir aðgerð í febrúar, en misjafnt er hversu lengi leikmenn eru að jafna sig á slíkum meiðslum. Getur tekið allt frá hálfu ári upp í heilt ár.

Ólöf hafði farið vel af stað með nýliðum Grindavíkur í Dominos deildinni þetta tímabilið. Í 9 leikjum með liðinu hafði hún skilað 12 stigum, 4 fráköstum og 2 stoðsendingum að meðaltali í leik, sem skilaði henni í þrettánda hæsta sæti framlags íslenskra leikmanna í deildinni.