KR-ingar tóku á móti liði Vals í DHL höllinni í kvöld. Fyrir leikinn höfðu heimamenn tapað síðustu tveimur deildarleikjum sínum en Valsarar komu inn með 6 tapleiki í röð. Bæði liðin hafa óneitanlega farið verr af stað en flestir spáðu fyrir og bar leikurinn brag af því. Óhætt er að segja að eftirvæntingin vegna heimkomu Pavels hafi verið töluverð en stemningin í húsinu var samt ansi róleg nær allan leikinn.

KR-ingar léku án Jóns Arnórs Stefánssonar og Kristófers Acox sem eru frá vegna meiðsla og veikinda. Það var ekki að sjá á liðinu að í það vantaði tvo af bestu mönnum deildarinnar en KR var ekki lengi að ná yfirhöndinni í leiknum. Valsmenn voru þó aldrei langt undan og var munurinn í hálfleik aðeins eitt stig, 42 – 41 KR í vil.

Í seinni hálfleik fóru gæði leiksins hratt niður á við. Valsarar virtust ekkert eiga eftir þegar kom að sóknarleiknum. KR tókst aftur á móti ekki að nýta sér það af miklu viti og munurinn fyrir lokaleikhlutann var 10 stig en hefði getað verið töluvert meiri, 61 – 51.

Fjórði leikhluti var eiginlega leiðinlegt framhald af þeim þriðja. Mikið um klaufaleg mistök og asnalegar villur. Valsarar sendu KR-inga endurtekið á vítalínuna fyrir litlar sakir og gáfu sjálfum sér ekki raunhæfan möguleika á sigri. Lokatölur voru 87 – 76 fyrir KR og áfram heldur löng leit Valsara að sigri.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Myndir / Guðlaugur Ottesen

Viðtöl / Ólafur Þór