Sexfaldir Íslandsmeistarar KR hafa bætt við sig evrópskum leikmanni fyrir átökin eftir áramót í Domino’s deild karla, samkvæmt heimildum RÚV.

Sá er þrítugur króatískur framherji að nafni Dino Cinac, sem leikið hefur með króatíska liðinu Krka síðastliðin tvö tímabil. Meiðsli hafa hrjáð KR-liðið að undanförnu, en meðal annars hafa Jón Arnór Stefánsson, Michael Craion og Kristófer Acox verið frá í undanförnum leikjum.

KR-ingar sitja í 5. sæti Domino’s deildarinnar, en eiga leik til góða á önnur lið vegna frestunar á leik þeirra gegn Þór Akureyri í gær.