Keflavík vann Njarðvík í kvöld í 16 liða úrslitum Geysisbikars karla í Njarðtaks-Gryfjunni með 73 stigum gegn 68. Keflavík verður því í pottinum þegar dregið verður í 8 liða úrslitin á meðan að Njarðvík hefur lokið keppni þetta tímabilið.

Leikur kvöldsins var jafn og spennandi í upphafi. Liðin skiptust á snöggum áhlaupum þar sem að Keflavík voru hænufeti á undan við lok fyrsta leikhlutans, 21-23. Undir lok fyrri hálfleiksins ná heimamenn þó að snúa taflinu sér í vil og eru með tveggja stiga forystuna sín megin þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 44-42.

Í upphafi seinni hálfleiksins gera gestirnir svo vel í að ná aftur yfirhöndinni. Vinna þriðja leikhlutann með sjö stigum og eru því fimm yfir fyrir lokaleikhlutann, 55-60. Í honum ná þeir svo að halda að mestu í þessa forystu og sigra að lokum með fimm stigum, 68-73.

Atkvæðamestu fyrir Keflavík í leiknum var Khalil Ullah Ahmad, en hann skoraði 29 stig, tók 5 fráköst og gaf 2 stoðsendingar. Fyrir heimamenn var það Wayne Ernest Martin sem dróg vagninn með 14 stigum, 5 fráköstum og 2 stoðsendingum.

Tölfræði leiks

Myndasafn