ÍR og Tindastóll áttust við í kvöld í 10. Umferð Domino´s deildar karla. Leikið var í Seljaskóla í Breiðholti. Leikurinn var jafn og spennandi þó svo að heimamenn hafi verið með frumkvæðið mest allan leikinn. Sco fór að ÍR sigraði að lokum 92 – 84.

Byrjunarlið ÍR: Evan Singletary, Collin Prior, Sæþór Kristjánsson, Gergi Boyanov og Danero Thomas.

Byrjunarlið Tindastóls: Jaka Brodnik, Pétur Rúnar Birgisson, Sinisa Bilic, Helgi Rafn Viggósson og Gerel Simmons.

Dómarar: Sigmundur Herbertsson, Jóhannes Páll Friðriksson og Georgia Olga Kristiansen.

Gangur leiksins

ÍR-ingar byrjuðu leikinn af krafti og skoruðu fyrstu 7 stig leiksins. Tindastóll jafnaði fljótt og var jafnræði með liðunum lengst af fjórðungnum en ÍR náði aftur 7 stiga forystu og leiddi eftir fyrsta leikhluta 26 – 19.  Evan Singletary opnaði annan leikhluta með þriggja stiga körfu og leiddu ÍR-ingar framan af leikhlutanum en með góðri vörn og mikilli baráttu náði Tindastóll yfirhöndinni og náðu forystu í fyrsta sinn í leiknum. ÍR átti þó lokaorðið og leiddi 46 – 45 þegar hálfleiksflautan gall. Stigahæstir í liði heimamanna í fyrri hálfleik voru þeir Evan Singlatery með 12 stig en Georgi Boyanov var með 10 stig. Hjá gestunum var Jaka Brodnik með 10 stig og Pétur Rúnar Birgisson með 9 stig.

Seinni hálfleikur einkenndist af mikilli baráttu og spiluðu bæði lið nokkuð fast. Leikurinn var jafn en ÍR-ingar voru alltaf skrefi á undan, oftast með 6 til 8 stiga forystu sem Stólarnir náðu aldrei að vinna upp. Staðan eftir þriðja leikhluta var 66 -61 fyrir ÍR. Sama var upp á teningnum í fjórða leikhluta, ÍR var alltaf skrefi á undan. Þegar 4 mínútur voru eftir skoraði Jaka Brodnik þriggja stiga körfu og minnkaði muninn niður í þrjú stig, 77 – 74 og bjuggust eflaust einhverjir við spennandi lokakafla. Sú varð aldrei rauninn því ÍR-ingar náðu að loka vel á sóknaraðgerðir Sauðkræklinga og héldu haus og sigruðu að lokum 92 – 84.

Hjá ÍR var Georgi Boyanov frábær í kvöld og skoraði hann 27 stig og tók 12 fráköst. Collin Prior var mjög sterkur og skoraði 19 stig og tók 7 fráköst. Það fór ekki eins mikið fyrir Evan Singlatery eins og oft áður í kvöld, enda var hann vel dekkaður mest allan leikinn. Hann var samt drjúgur og þá sérstaklega undir lokinn, en hann skoraði 18 stig. Danero Thomas átti líka fína spretti en heilt yfir var þetta mjög góð liðs frammistaða hjá ÍR.

Leikur Tindastóls var kaflaskiptur og þurftu þeir að elta mest allan leikinn og náðu aldrei að gera almennilegt áhlaup á heimamenn. Stigahæstur í þeirra liði var Pétur Rúnar Birgisson með 20 stig en Sinisia Bilic skoraði 18 stig og Jaka Brodnik  og Gerel Simmons voru báðir með 16 stig.

Sagt eftir leik

Borche þjálfari ÍR

„Þetta var jafn leikur eins og við bjuggumst við. Það vantaði leikmenn hjá þeim en einnig vantaði fjölmarga hjá okkur. Þannig að það var erfitt að finna jafnvægi í að skipta leikmönnum inn á til að hvíla menn og halda öllum ferskum en það tókst. Mér fannst þeir spila nokkuð hart og sérstaklega á móti Evan. Ég var ekki ánægður með hvernig þeir komust upp með að berja á honum. Mér fannst að dómararnir hefðu átt að vernda hann meira og ekki leyfa þeim að komast upp með svona leik. En við reyndum að koma honum til aðstoðar og það tókst og undir lokin vann hann leikinn fyrir okkur sem var frábært.“

Baldur þjálfari Tindastóls

„ÍR-ingar voru betri en við í kvöld og við þurftum að elta þá meirihlutann af leiknum og náðum ekki að stoppa þá. Þeir skoruðu 92 stig á okkur sem er of mikið. Það var það sem felldi okkur hér í kvöld.“

Ferðalagið suður var langt, sat það eitthvað í ykkur?

„Nei, alls ekki. Við erum vanir því að ferðast þannig að það breytti engu. Við þurfum bara einfaldlega að gera betur.“

Tölfræði leiksins

Myndasafn (Þorsteinn Eyþórsson)

Umfjöllun og myndir: Þorsteinn Eyþórsson