Höttur komst í efsta sæti 1. deildar karla í kvöld þegar liðið fékk Álftanes í heimsókn.

Álftanes mætti öflugt til leiks og fór Dúi Þór Jónsson fyrir liðinu þar sem hann stýrði hraðanum vel. Álftanes mætti til leiks án Samuel Prescott og munar þar um minna. Höttur var aldrei langt á eftir og gáfu lítið eftir.

Gestirnir leiddu í hálfleik 39-47 þar sem Þorsteinn Finnbogason fór fyrir sínum mönnum með 15 stig í hálfleik þar sem hann setti nokkur ævintýraleg skot.

Höttur mætti mun sterkari til leiks í seinni hálfleikinn og hrifsaði forystuna af gestunum í þriðja leikhluta. Höttur setti svo stóru körfurnar í lokin en Álftnesingar höfðu fá svör. Lokastaðan 87-76 fyrir Hetti.

Álftanes var sprækt lið, þar eru ungir og efnilegir að fá nóg af tækifærum og gerðu vel að standa í Hattarliðinu.
Hjá Hetti voru margir með framlag í dag. Matej Karlovic endaði með 28 stig og Marcus Jermaine Van með gott framlag í teignum 21 frákast og 5 varin skot.

Höttur er þar með komið í efsta sæti í deildinni, einum sigri á undan Hamri og Breiðablik sem eiga leik inni. Álftanes er í sjötta sæti deildarinnar eftir tapið.

Höttur-Álftanes 87-76 (19-20, 20-27, 27-14, 21-15)

Höttur: Matej Karlovic 28/4 fráköst, Eysteinn Bjarni Ævarsson 16/10 fráköst/5 stoðsendingar, David Guardia Ramos 14/8 fráköst, Ásmundur Hrafn Magnússon 10, Dino Stipcic 10/9 stoðsendingar, Marcus Jermaine Van 6/21 fráköst/5 varin skot, Brynjar Snaer Gretarsson 3, Bóas Jakobsson 0, Vernharður I. Snæþórsson 0, Einar Bjarni Helgason 0, Hallmar Hallsson 0, Sigmar Hákonarson 0.

Álftanes: Þorsteinn Finnbogason 19/6 fráköst, Þorgeir Kristinn Blöndal 17, Vilhjálmur Kári Jensson 13/14 fráköst, Dúi Þór Jónsson 13/6 fráköst/6 stoðsendingar, Birgir Björn Pétursson 9, Brynjar Magnús Friðriksson 5/5 fráköst, Unnsteinn Rúnar Kárason 0, Grímkell Orri Sigurþórsson 0, Guðjón Hlynur Sigurðarson 0, Baldur Már Stefánsson 0, Kjartan Atli Kjartansson 0. 
Dómarar: Friðrik Árnason, Egill Egilsson 

Umfjöllun: Pétur Guðmundsson