Stuðningsmenn Hamars fengu mikið fyrir peninginn í kvöld þegar kvennalið félagsins vann Keflavík-b 104-98 í æsispennandi leik sem fór í tvöfalda framlengingu.


Fyrsti leikhluti lofaði ekki góðu en svo fór allt að ganga betur og liðið spilaði á köflum alveg fantavel. Staðan var 39-43 í leikhléi en Hamar komst yfir í 3. leikhluta með fínum varnarleik.


Lokamínúturnar voru æsispennandi, Keflavík jafnaði 73-73 þegar 2:45 mín voru eftir af leiknum en Hamar komst aftur yfir í kjölfarið. Gestirnir skoruðu hins vegar síðustu fjögur stigin í venjulegum leiktíma og tryggðu sér framlengingu. Mikið jafnræði var með liðunum í framlengingunni en Keflavík náði frumkvæðinu undir lokin. Íris Ásgeirsdóttir setti þá niður þriggja stiga skot þegar fjórar sekúndur voru eftir og kallaði fram aðra framlengingu, 83-83.


Í annarri framlengingu leiddu stelpurnar í Keflavík, en undir lok hennar skoraði Hamar síðustu átta stigin, þar sem Íris raðaði niður fjórum vítaskotum og tryggði liðinu sætan sigur, 104-98.


Tölfræði Hamars: Íris Ásgeirsdóttir 35/5 fráköst/8 stoðsendingar, Álfhildur E. Þorsteinsdóttir 19/24 fráköst/9 stoðsendingar, Helga Sóley Heiðarsdóttir 17/4 fráköst, Jenný Harðardóttir 14/15 fráköst, Gígja Marín Þorsteinsdóttir 8, Rannveig Reynisdóttir 4, Perla María Karlsdóttir 4, Þórunn Bjarnadóttir 3/7 fráköst, Una Bóel Jónsdóttir 0, Dagrún Inga Jónsdóttir 0.

Tölfræði leiks

Umfjöllun / Bjarney Sif