Körfuboltaárinu 2019 fer senn að ljúka en um áramót er hefð að líta um öxl og sjá hvað stóð uppúr á árinu. Margar stórar fréttir voru birtar á Körfunni á árinu enda stórt ár að baki. Það er þó ekki alltaf samansem merki milli þess að vera stórt frétt og vera aðsóknarmikil.

Hér að neðan skoðum við tíu vinsælustu fréttir ársins 2019 á Karfan.is.

1. Kom til handalögmála á milli stuðningsmannasveita


Undanúrslitaleikur ÍR og Stjörnunnar í Geysisbikarnum verður lengi í minnum hafður en líklega fyrir annað en frammistöðu á vellinum. Til handalögmála kom meðal stuðningsmanna þegar tvær mínútur voru liðnar þar sem hnefar flugu. Það stóð þó stutt yfir og ákváðu stuðningsmenn að einbeita sér að leiknum eftir það. Ljósmyndari Körfunnar, Bára Dröfn náði ótrúlegri mynd af þessu. Til gamans má geta er að þetta er stærsta frétt Körfunnar frá upphafi.

2. Yfirlýsing frá Sindra: Málið tekið föstum tökum

Í október bárust fréttir af því að leikmaður Hamars hafi mátt þola kynþáttaníð þegar að liðið lék gegn Sindra á Höfn í Hornafirði. Körfunni barst yfirlýsing frá Sindra sem varð vinsæl frétt.

3. Kristófer Acox upplifði rasisma í fyrsta skipti á ferlinum í Síkinu “Ingi Taktu Kristó útaf og settu hann aftur í apabúrið”

KR sigraði Tindastól í 16. umferð Dominos deildar karla á Sauðárkróki. Kristófer Acox, besti leikmaður Dominos deildarinnar á síðustu leiktíð sagði frá því á twitter eftir leik að hann hefði orðið fyrir kynþáttaníð í Síkinu.

4. Ágúst: Jones hætti í hálfleik

Viðtal við Ágúst Björgvinsson þjálfara Vals þar sem hann var m.a. spurður út í fjarveru Christopher Rasheed Jones leikmanns Vals sem mætti ekki til leiks með liðinu eftir hálfleik í leik Keflavíkur og Vals í kvöld. 

5. Opið bréf frá stjórn Þórs til KKÍ – Ósáttir við aðferðir Tindastóls

Körfunni barst opið bréf stjórnar Þórs til stjórnar Körfuknattleikssambandsins. Í því er farið yfir nokkuð víðan völl. Bæði varðandi það hvert körfuknattleikurinn stefni almennt sem og láta Þórsarar óánægju sína varðandi það hvernig Tindastóll fór að því að stinga undan þeim þjálfaranum Baldri Þór Ragnarssyni.

6. Fyrrum leikmaður Tindastóls ósáttur við dvölina: „Vill að næsti leikmaður viti út í hvað hann er að fara“

Michael Ojo var leikmaður Tindastóls í byrjun árs og var látinn fara í febrúar og var vægast sagt ekki sáttur. Hann tjáði það með langri færslu á Instagram reikningi sínum fyrr í kvöld. Þar segist hann vera glaður með að vera á heimleið.

7. Maté: Heimaleikjabann út lífið, hann hefur ekkert á íþróttaviðburði að gera

Karfan heyrði í þjálfara Hamars, Maté Dalmay, rétt áður en Sindri gaf út yfirlýsingu sína og spurði hann hvernig atvikið hefði litið út fyrir honum.

8. Sigurkarl tekur sér frí frá körfubolta

ÍR sem komst í úrslitaeinvígi Dominos deildar karla varð fyrir nokkurri blóðtöku frá því að liðið tapaði titlinum til KR fyrr á árinu. Ljóst er að fyrirliði liðsins á síðustu leiktíð Sigurkarl Róbert Jóhannesson mun ekki leika með liðinu á næstu leiktíð. Þetta staðfesti Sigurkarl í samtali við Körfuna en hann hefur tekið sér ótímabundið frí frá körfubolta.

9. Matthías og Jakob semja við KR

Bræðurnir Jakob Örn Sigurðarson og Matthías Orri Sigurðarson sömdu við lið KR um að leika með liðinu á komandi leiktíð og sneru þar með á heimahagana.

10. 16 manna hópur landsliðsins fyrir Smáþjóðaleikana

Craig Pedersen, Finnur Freyr Stefánsson og Baldur Þór Ragnarsson, þjálfarar landsliðs karla kölluðu saman 16 leikmenn til æfinga fyrir Smáþjóðaleika 2019 sem fór fram í Svartfjallalandi dagana 27. maí – 1. júní.

11. Neyðarkall á Akureyri – Liðið dregið úr Dominos deilinni?

Endurkoma Þórs Ak í Dominos deildinni hékk á bláþræði í haust þegar möguleiki var á að liðið myndi draga sig úr leik. Velunnarar körfuboltans á Akureyri voru uggandi og gekk bréf milli manna þar sem sannkallað neyðarkall var sent út.

12. Umfjöllun: Peningar eða ástríða?

Umfjöllun Kára Viðarssonar frá leik tvö í undanúrslitaeinvígi Stjörnunnar og ÍR sló heldur betur í gegn þar fyrirsögnin segir sig sjálfa.

13. Hlynur: Bara aðkeyptir sálarlausir kapítalistar virðast margir halda

Viðtal umrædds Kára við Hlyn Bæringsson sló einnig í gegn.

14. Æfingahópar yngri landsliðana klárir – Flestir úr Keflavík og Fjölni

Landsliðsþjálfarar yngri liða KKÍ sumarið 2020 tilkynntu fyrstu æfingahópa fyrir jólaæfingarnar í ár sem fram fara milli jóla og nýárs.

15. Hákon til Binghampton Bearcats

Hákon Hjálmarsson samdi við Binghamton Bearcats háskólann um að leika með þeim þessu tímabili. Binghamton eru í fyrstu deild bandaríska háskólaboltans, en þar eru þeir í American East deildinni.