Breiðablik vann ÍR í Smáranum í kvöld í 32-liða úrslitum Geysisbikarsins, 94-86.

Gangur leiksins

Blikar hófu leikinn sterkt og tóku fljótt forystu með góðu framlagi frá Larry Thomas og Hilmari Péturssyni. ÍR-ingar byrjuðu leikinn með Arnór Hermannsson inn á í stað Evan Singletary og það stýrði ekki góðri lukku, enda spilaði Arnór ekki nema 10 mínútur í leiknum.

ÍR-ingar náðu að keyra sig í gang úr stöðunni 12-6 eftir fjórar mínútur og tóku 13-2 áhlaup til að laga stöðuna í 14-19 áður en að Breiðablik tók sitt eigið 13-4 áhlaup til að loka fyrsta leikhlutanum 27-23.

Breiðablik hélt áfram að spila af öryggi og fengu ágætt framlag frá ungum og óhræddum leikmönnum sínum af bekknum. Borche Ilievski, þjálfari ÍR, tók leikhlé á sjöttu mínútu í öðrum leikhlutanum en það hafði þveröfug áhrif, enda skoruðu Blikar 13 stig gegn aðeins sex hjá ÍR-ingum áður en hálfleiksklukkan gall. Staðan í hálfleik 43-53 fyrir heimamönnum.

Maður á mann vörn virtist ekki vera að virka fyrir gestina úr Breiðholti í fyrri hálfleik og ekki batnaði ástandið í þriðja leikhluta. Breiðablik skoraði tíu stig gegn aðeins þremur hjá ÍR á fyrstu þremur mínútunum svo Borche neyddist til að nýta leikhlé til að ræða við lærisveina sína. Þeir settu upp í svæðisvörn eftir leikhléið og hlutirnir fóru loks að ganga gestunum í hag. Sókn Breiðabliks fór aðeins úr skorðum við nýja varnartilbrigðið og áður en Blikar vissu af höfðu ÍR-ingar lokið 13 stiga áhlaupi án þess að heimaliðið næði að svara með einni körfu.

Liðin skiptust aðeins á körfum eftir áhlaup gestanna og Arnór Hermannsson náði að loka þriðja leikhlutanum með ólíklegum þrist frá miðlínunni á flautugjallinu. ÍR-ingar fóru því inn í lokafjórðunginn aðeins þremur stigum frá Breiðablik, 69-66.

ÍR setti fyrstu tvö stig fjórða leikhlutans með sniðskoti frá Georgi Boyanov en áttu síðan afleita mínútu þar sem Blikar settu þrjá þrista í röð og Borche neyddist til að taka annað leikhlé. Breiðhyltingar hófu aftur að saxa á forskotið en þristaregn frá Blikum hélt þeim alltaf þægilega í skefjum. ÍR-ingar komust aldrei nær en þrjú stig á seinustu fimm mínutum leiksins og Breiðablik vann því að lokum með átta stigum, 94-86.

Hvað vann leikinn?

ÍR spilaði ekki nægilega góða vörn til að byrja með í leiknum og margir Blikar fundu fljótt fyrir öryggi í sínum aðgerðum, bæði í sókn og vörn. Þegar Breiðhyltingar hertu sig loksins var það orðið of seint og liðsmenn Breiðabliks hittu úr skotunum sínum hvort sem að þeir voru dekkaðir eða ekki.

Lykillinn

Larry Thomas reyndist ÍR mjög erfiður og hitti úr 67% allra skota sem hann tók í leiknum. Hann setti átta þrista úr ellefu tilraunum (8/11, 73% þriggja stiga nýting) og virtist á köflum getað skorað að vild. Thomas lauk leik með 39 stig, níu fráköst, fimm stoðsendingar og þrjá stolna bolta. Framlagið hans var nærri því tvöfalt hærra en næsthæsta framlag leiksins en hann var með 43 framlagspunkta.

Aðrir góðir í liði Breiðabliks voru þeir Hilmar Pétursson (21 stig) og Árni Elmar Hrafnsson (14 stig, 4/10 í þristum).

Hjá ÍR var Evan Singletary bestur með 17 stig, sex fráköst og ellefu stoðsendingar.

Kjarninn

ÍR virðist ennþá hafa verið á einhverju bleiku skýi eftir sigurinn gegn KR fyrr í vikunni og mættu heldur rólegir til leiks gegn peppuðu liði Breiðabliks.

Blikar höfðu engu að tapa og spiluðu af miklu sjálfsöryggi gegn liði ÍR sem eyddi of miklum tíma í að pirra sig á dómgæslunni og að þeir gætu ekki valtað yfir 1. deildar liðið sem að þeir mættu í 32-liða úrslitum bikarkeppninnar. Þristunum rigndi hjá Breiðablik og það dugði til að halda ÍR frá heimamönnum út leikinn.

Nýtt Öskubuskulið í bikarnum?

Þá er Breiðablik komið áfram í 16-liða úrslit Geysisbikarsins og unnu Öskubuskulið ÍR-inga frá því í fyrra til þess að komast áfram. Hver veit nema þeir mæti öðrum andstæðingi sem er ekki nægilega reiðubúinn fyrir skotglatt lið Blika.

ÍR-ingar hafa þá lokið leik í bikarkeppninni í ár og verða að sætta sig við að komast ekki í Laugardalshöllina eins og þeir gerðu í fyrra.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Bjarni Antonsson)