Valsmenn fengu Þórsara í heimsókn í 9. umferð Domino’s deildar karla. Valsmenn höfðu tapað síðustu fjórum leikjum sínum í deildinni fyrir leikinn í kvöld. Þórsarar voru án sigurs í vetur. Gestirnir voru grátlega nálægt því að sigra Stjörnuna í síðustu umferð og því fróðlegt að sjá viðureignina í kvöld.

Þórsarar byrjuðu leikinn betur og nýttu sér andleysi og vonleysi í leik heimamanna. Gestirnir leiddu með nítján stigum í hálfleik. Valsarar komu öflugri inn í seinni hálfleikinn og minnkuðu forskot gestanna um þrettán stig í þriðja fjórðungi. Valsmenn minnkuðu muninn niður í eitt stig í lokafjórðungnum en gestirnir héldu út og tryggðu sinn fyrsta deildarsigur.

Gangur leiks:

Gestirnir mættu sterkari til leiks og leiddu 6-12 eftir fjórar og hálfa mínútu – Ágúst, þjálfari Valsara, sá sig knúinn að taka leikhlé og ræða málin. Valsmenn vöknuðu svona mínútu eftir leikhléið en þá voru Þórsarar þrettán stigum yfir. Munurinn sjö stig eftir fyrsta fjórðung.

Þórsarar voru komnir með tólf stiga forskot eftir rúmar fimm mínútur í öðrum leikhluta. Það stóð ekki steinn yfir steini í leik Valsmanna, hvorki varnar- né sóknarlega. Þórsarar gátu fengið þau skot sem þeir vildu. Ágúst tók aftur leikhlé til að reyna að skerpa á sínum mönnum. Það fór ekki betur svo að Þórsarar áttu lokamínútur hálfleiksins skuldlaust. Nítján stiga munur var á liðunum í hálfleik.

Allt annað Valslið mætti til leiks í seinni hálfleikinn. Þeir voru fljótlega búnir að setja niður þrjár þriggja stiga körfur og vekja stuðningsmenn sína af værum blundi. Alls sjö þriggja stiga skot rötuðu rétta leið hjá Valsmönnum í þriðja fjórðungi og minnkuðu þeir muninn um þretttán stig. Munurinn var því sex stig fyrir lokafjórðunginn. (28-15 fyrir Val í fjórðungnum).

Á fyrstu rúmu sex mínútunum í loka fjórðungnum skoruðu liðin saman 13 stig, 7-6 fyrir Val. Þórsarar leiddu með fimm stigum þegar Lárus tók leikhlé þegar hans men höfðu tvær sekúndur til að ná skoti á körfuna, bæði lið höfðu skipt um gír varnarlega og sóknarleikurinn hikandi.

Einni og hálfri mínútu seinna leiddu Þórsarar með sjö stigum og voru með boltann þegar rúmar tvær mínútur lifðu leiks. Þórsarar skoruðu næstu þrjú stig og höfðu tíu stiga forskot þegar 90 sekúndur voru eftir. Þeir héldu út og kláruðu fyrsta sigurinn.

Vendipunkturinn:

Það varð í raun enginn aðal vendipunktur í leiknum. Bracey minnkaði muninn í eitt stig snemma í 4. leikhluta en Júlíus Orri svaraði með tveimur vítaskotum í næstu sókn. Holan, sem Valsmenn grófu sig í í fyrri hálfleiknum, var á endanum einfaldlega of djúp.

Hetjan: Hanzel Atencia

Líkt of oftast áður var Hanzel besti leikmaður Þórsara. Hann skoraði 24 stig og gaf 6 stoðsendingar, í heildina var hann með 25 framlagspunkta. Á lokamínútunni setti hann niður fimm vítaskot af sex.

Tölfræðin lýgur ekki:

Valsmenn töpuðu 19 boltum í leiknum en andleysi og vonleysi sést ekki alltaf í tölfræði, lausir boltar náðust ekki og liðið sem sigraði sýndi meiri vilja til þess að vinna í kvöld. Fyrri hálfleikurinn var einfaldlega ekki boðlegur hjá heimamönnum líkt og í flestum leikjum í vetur.

Mínútuþögn fyrir leik:

Fyrir leikinn í kvöld var mínútuþögn. Bergur Már Emilsson, fyrrverandi leikmaður og þjálfari Vals, lést á dögunum langt fyrir aldur fram.

Vonleysi Valsmanna:

Heimamenn spiluðu virkilega illa í fyrri hálfleiknum. Lítið gekk sóknarlega og varnarleikur liðsins var langt frá því boðlegur. Liðið tapaði boltanum tólf sinnum í fyrri hálfleiknum og fékk á sig heil 30 stig inn í teig. Leikmenn virkuðu andlausir og stemningin lifði aldrei lengi ef eitthvað gekk upp. Nítján stiga munur á heimavelli gegn botnliðinu, þarf að segja meira?

Opnuðu seinni hálfleikinn með fjórum þristum:

Valsmenn fóru greinilega vel yfir hlutina í hálfleik því það var líf í þeim í upphafi seinni hálfleiks. Pavel setti þrist, Ástþór setti tvo þrista og Phil setti einnig niður einn þrist á fyrstu 160 sekúndum seinni hálfleiksins. Þetta kveikti í stuðningsmönnum Vals sem höfðu verið ansi hljóðlátir fram að þessu. Lárus, þjálfari Þórs, brást við með því að taka leikhlé þegar fjórði þristurinn fór ofan í. Alls sjö þristar rötuðu rétta leið hjá Valsmönnum í fjórðungnum.

Þórsarar héldu út:

Til þessa í umfjöllunninni hefur mest verið einblínt á frammistöðu Valsmanna í kvöld. Það skal ekkert taka af Þórsurum sem spiluðu á köflum virkilega vel. Júlíus Orri, Hanzel og Palmer voru flottir sóknarlega og stálu 10 boltum saman þess að auki. Sóknarleikurinn hikstaði þegar Valsmenn sóttu á í seinni hálfleik en ólíkt því sem gerðist fyrir rúmri viku á Akureyri (Stjarnan kom til baka og sigraði) héldu Þórsarar út og uppskáru sætan sigur, vel gert Þórsarar.

Tölfræði leiks