-Heimakonur með sinn annan sigur í röð-

Keflavíkurstúlkur áttu ekki í neinum erfiðleikum með Breiðablik í 3. umferð Domino´s deildar kvenna í Blue höllinni í Reykjanesbæ í kvöld. Talsverður getumunur var  á liðunum sem kom snemma í ljós þar sem Daniela Wallen fór fyrir heimakonum sem unnu öruggan sigur, 89-56.

Byrjunarlið Keflavíkur: Salbjörg – Emelía -Þóranna Kika – Kamilla Sól – Daniela Wallen

Byrjunarlið Breiðabliks: Þórdís Jóna – Fanney Lind – Björk G – Violet – Paula Anna

Gangur leiksins

Keflavík komst í 7-0 áður en gestirnir náðu að svara tilbaka og hefðu heimakonur getað leitt með 30 stigum eftir fyrsta leikhluta ef sóknin hefði haft aðeins meiri brodd. Örllítil værukærð og slæm hittni kom í veg fyrir að Keflavík hreinlega kláraði leikinn á fyrstu 10 mínútum leiksins. Breiðablik réði bara ekkert við gæði Danielu Wallen eða breidd og ákefð heimakvenna allra. Munurinn þó ekki nema 11 stig eftir 1. leikhluta 21-10 þar sem Salbjörg Sævarsdóttir fór mikinn varnarlega og varði 3 skot.

Blikar byrjuðu 2. leikhlutann betur og minkuðu muninn í 7 stig með þéttri svæðisvörn sem svíngekk þar sem Keflavík nýtti ekkert af opnum þriggja stiga skotum sínum til að byrja með og fengu þær fríu skotin í kippum. Jón Halldór tók leikhlé fyrir Keflavík, stillti nokkra strengi og í kjölfarið kom 9-0 kafli þar sem Kamilla Sól og Þórunn Kika létu mikið fyrir sér fara á báðum endum vallarins. Keflavík leiddi með 11 stigum í hálfleik, 41-30.

Keflvíkingar herrtu tökin um háls gestanna í þriðja leikhutanum og léku við hvurn sinn fingur þar sem liðsframtakið fékk að njóta sín í vörn og sókn. Fljótt var munurinn kominn upp í 25 stig og ljóst að Blikastúlkur væru aldrei líklegar til að ógna sigri heimakvenna. Staðan fyrir lokafjórðunginn 69 – 45.

Fjórði leikhlutinn var svo formsatrið fyrir Keflvíkinga sem létu aldrei undan og spiluðu af sama kraftinum út leikklukkuna. Róteringin var mikil og alveg sama hver kom inná í liði þeirra, óeigingjarnt spil og mikil vinnsla var til staðar hjá þeim öllum. Breiðablik gafst þó aldrei upp og íslenskir leikmenn liðsins reyndu hvað þær gátu og eiga í raun hrós skilið fyrir gott hugarfar sem var þó ekki nóg til að gera atlögu að sigri í kvöld. Lokatölur 89-56.

Það sem skildi liðin að í kvöld

Hrein gæði. Svo einfalt er það. Keflavík er með liðsheild þar sem allir geta ógnað og þá var vörnin og ákefðin í þeirra leik á allt öðru leveli en það sem gestirnir réðu við í kvöld. Erlendir leikmenn Breiðabliks, þær Violet Morrow og Paula Anna Tarnachowicz, hefðu þurft að draga vagninn af mun meiri festu og sýna betra fordæmi í vörninni hefðu Breiðablik átt að eiga raunhæfan möguleika í kvöld. Þær stöllur voru því miður ansi daprar heilt yfir þótt Morrow hafi sótt tölfræðina sína. 30 tapaðir boltar hjá Blikum segja helling um það sem gekk á í kvöld.

Besti leikmaður vallarins:

Daniela Wallen var best í liði Keflavíkur í kvöld og endaði með 26 stig, 14 fráköst, 5 stoðsendingar og 6 stolna bolta. Algjör yfirburðarkona á velli í kvöld og passar vel inn í þetta Keflavíkurlið.

Þá var Salbjörg Sævarsdóttir eins og drottning í ríki sínu í teig heimakvenna, varði heil 8 skot og breytti fjölmörgum skotum til viðbótar auk þess að skora 9 stig, taka 9 fráköst og stela 2 boltum. Frábær leikur hjá Salbjörgu sem hefði þó mátt nýta skotin sín betur.

Þóranna Kika og Emelía Ósk voru líka mjög góðar eins og heilt yfir allt Keflavíkurliðið sem þó spilaði eins og það ætti allavega tvo gírai inni  í kvöld.

Hjá Breiðablik var Violet Morrow langatkvæðamest með 26 stig og 12 fráköst auk þess að stela 4 boltum. Þá átti Telma Lind Ásgeirsdóttir ágæta innkomu og skoraði 7 stig, tók 5 fráköst og gaf 2 stoðsendingar og barðist vel allan tímann.

Hvað þýða úrslitin?

Keflavíkurstúlkur hafa þá unnið 2 leiki í röð og lyfta sér upp í 3. sæti deildarinnar. Liðið er spennandi, breiddin mikil og ljóst að Jón Halldór og Hörður Axel eru á góðri vegferð með ungt lið sem gæti blandað sér í alls konar mál í vetur ef þær halda áfram að þróa sinn leik. Breiðablik er án sigurs og þarf Ívar Ásgrímsson og hans stúlkur að taka til og fínpússa margt í sínum leik ætli þær sér ekki að lenda í djúpri holu snemma.

Hvar voru stuðningsmenn Breiðabliks í kvöld?

Það mætti halda, á mætingu áhangenda Breiðabliks að dæma, að á milli Kópavogs og Reykjanesbæjar væru fjöll, dalir og eyðimerkur sem aðeins hugrakkasta fólk legði í að brúa. Stuðningssveit þeirra grænklæddu taldi þrjár manneskjur, heiðarlega úthverfafjölskyldu úr Salahverfinu að styðja dóttur sína og systur að öllum líkindum. Hver sú heppna er skal ósagt látið en víst er að á því heimili eru menn með sín gildi á hreinu. Mikið lof til þeirra þriggja sem tóku rúntinn með óskum um góða og örugga heimferð en að sama skapi lýsum við frati á þessa mætingu gestanna sem er bæði liði Breiðabliks og Domino´s deildinni óboðleg. Dapurt er eiginlega ekki nógu lýsandi orð en það verður nú samt fyrir valinu að þessu sinni.

Á hinn bóginn voru Keflvíkingar mjög fjölmennir í stúkunni í kvöld, studdu við bakið á sínum konum virðast ætla að fylkja liði í vetur á bakvið spennandi lið sem gæti gert usla í Domino´s deildinni í vetur. Vonandi verða Keflvíkingar jafn duglegir að mæta á útivöllinn í vetur líka.

Tölfræði leiks

Umfjöllun: / Sigurður Friðrik Gunnarsson