Slegið hefur verið á allar efasemdarraddir um þátttöku Þórs Akureyri í Dominos deildinni í vetur. Karfan greindi fyrst frá því í gær að til stæði að draga lið Þórs úr keppni.

Í gær lék Þór hinsvegar æfingaleik við Hamar þar sem velunnarar körfuboltans á Akureyri fjölmenntu og hægt var að manna stjórn og helstu verkefni. Þórsarar sendu frá sér yfirlýsingu þar sem tilkynnt var að framtíð körfuboltans hjá Þór væri tryggð.

Tilkynningu Þórs má finna hér að neðan:

Framtíð körfuboltans hjá Þór tryggð

Karlalið Þórs mun leika í Domino´s deildinni í vetur eins og til stóð.

Í dag var greint frá því á vefnum karfan.is sem og mbl.is að til stæði að draga karlalið Þórs úr keppni í Dominos´deildinni sökum þess hve fáar hendur komi að starfinu.

Rétt er að stjórnin var heldur fámenn og því var boðað til samstöðufundar í Hamri þar sem framtíð körfuboltans yrði rædd.

Á fimmta tug áhugafólks mætti á fundinn og gott spjall var tekið um stöðu körfuboltans hjá Þór. Fór svo að fram stigu fimm einstaklingar sem buðu sig fram til stjórnarsetu ásamt núvernandi stjórn.

Auk þessa steig upp fjöldi stuðningsmanna sem bauð sig fram í hin ýmsu fjáröflunarverkefni.

Tekið skal fram að þótt nú hafi margar hendur bæst í bakvarðarsveit deildarinnar þá er enn pláss fyrir áhugasamt fólk sem vill leggja deildinni lið og vinna með skemmtilegu fólki við áframhaldandi uppbyggingu körfuboltans á Akureyri.

Karlalið Þórs er jú í efstu deild og þar vilja menn og telja sig eiga heima ekki bara í dag heldur í framtíðinni.

Áhugsömum sem vilja vera með geta haft samband með því að senda tölvupóst á karfan.stjorn@thorsport.is eða framkvæmdastjóra Þórs, Reimar Helgason reimar@thorsport.is