Árleg spá Körfunnar fyrir Dominos deildirnar er nú klár en sérstakir sérfræðingar Körfunnar settu saman spánna. Sérfræðingarnir eru pennar Körfunnar, leikmenn og þjálfarar sem leikið hafa í Dominos deildunum eða þekkja vel til. Það styttist óðum í að Dominos deildin hefjist og því við hæfi að byrja að telja niður með því að spá í spilin.

Spáin heldur áfram og næst er það liðið í 2. sæti.

2. sæti – KR

Sem nýliðar í Dominos deildinni gerði KR virkilega vel á síðasta tímabili. Komust í nokkuð örugglega í undanúrslitin þar sem liðið náði að stríða verðandi Íslandsmeisturum í Val þó nokkuð áður en þær töpuðu svo að lokum. Nokkuð merkilegt nýliðaár hjá félaginu, en fyrir þetta síðasta tímabil var liðið stórlega vanmetið, spáð falli. Fyrir þetta tímabil má vera að KR sé aftur vanmetið, þrátt fyrir að vera nú spáð í annað sætið, en ekki það áttunda. Bæta við sig gífurlega góðum leikmönnum í Danielle, Sanja, Hildi, Margréti Köru og Sóllilju. Hakan færi ekki í gólfið þó þær myndu vinna deildina í vetur.

Komnar:

Danielle Rodriquez frá Stjörnunni

Sóllilja Bjarnadóttir frá Breiðablik

Hildur Björg Kjartansdóttir frá Spáni

Sanja Orazovic frá Breiðablik

Alexandra Eva Sverrisdóttir frá Stjörnunni

Margrét Kara Sturludóttir frá Stjörnunni

Farnar:

Kiana Johnson til Vals

Vilma Kesanen óljóst

Orla O’Reilly til Sunbury (Ástralía)

Mikilvægasti leikmaður:

Danielle Rodriguez hefur verið einn besti leikmaður deildarinnar undanfarin ár með Stjörnunni. Nú komin í töluvert betra lið KR þar sem að væntingarnar eru að fara alla leið. Lykilatriði fyrir þennan (mikið til) nýja hóp að Danielle stjórni leik liðsins á gólfinu eins og herforingi.

Fylgist með

Ástrós Lena Ægisdóttir átti gott tímabil í fyrra. 19 ára gömul skilaði hún 6 stigum, 2 fráköstum og stoðsendingu að meðaltali í leik á sínu fyrsta tímabili í efstu deild. Mínúturnar verða kannski ekki jafn margar í vetur, en við búumst við því hún muni samt halda áfram og byggja ofan á gott síðasta tímabil.

Þakið:

KR getur vel unnið deildina. Fyrsta sætið verður að teljast næstum alveg eins líklegt og þetta annað sæti sem spáin segir.

Gólfið:

KR endar aldrei neðar en í öðru sætinu. Enginn veruleiki til þar sem þær enda í þriðja sætinu eða neðar.

Spá Körfunnar fyrir Dominos deild kvenna 2019/2020

  1. _________________
  2. KR
  3. Keflavík
  4. Haukar
  5. Snæfell
  6. Grindavík
  7. Breiðablik
  8. Skallagrímur