Árleg spá Körfunnar fyrir Dominos deildirnar er nú klár en sérstakir sérfræðingar Körfunnar settu saman spánna. Sérfræðingarnir eru pennar Körfunnar, leikmenn og þjálfarar sem leikið hafa í Dominos deildunum eða þekkja vel til. Það styttist óðum í að Dominos deildin hefjist og því við hæfi að byrja að telja niður með því að spá í spilin.

Spáin endar með liðinu sem er spáð efsta sætinu.

1. sæti – Valur

Valur vann allt sem í boði var á síðasta tímabili. Bikar, deild og Íslandsmeistarar með Helenu Sverrisdóttur í broddi fylkingar. Fyrir þetta næsta tímabil má þá ætla að öll skotmerkin verði á bakinu á liðunum. Liðið missti reyndar Ástu Júlíu Grímsdóttur í háskóla til Bandaríkjanna í sumar, en hún var á köflum frábær fyrir liðið á síðasta tímabili. Í staðinn fá þær þó Sylvíu Rún Hálfdánardóttur frá Þór Akureyri, sem einnig er frábær leikmaður.

Svo eru það kanaskiptin, Heather út fyrir Kiana sem spilaði með KR í fyrra. Þeir sem fylgdust með vita að líklega verður liðið bara betra með hana. Skipta svo evrópskum leikmanni sínum einnig út, Regina inn fyrir Simona. Kemur í ljós hvort það hafi verið heillaspor. Liðið er í versta falli jafn gott og í fyrra, jafnvel betra. Verður erfitt fyrir önnur lið en KR að keppa við þær í vetur.

Komnar:

Kiana Johnson frá KR

Regina Palusna frá Ástralíu

Sylvía Rún Hálfdánardóttir frá Þór Ak

Farnar:

Heather Butler óljóst

Ásta Júlía Grímsdóttir til Houston Baptist Huskies

Simona Podesvova óljóst

Mikilvægasti leikmaður:

Helena Sverrisdóttir er líklega einn besti körfuknattleiksmaður sem Ísland hefur alið. Það sem meira er, hún er ennþá í sínu besta standi. Við mælum með því að fólk geri sér leið í Origo Höllina í vetur og fylgist með þessum sögulega góða leikmanni á meðan að hún er enn upp á sitt besta. Deildin á ekki breik í hana.

Fylgist með

Tvítuga bakverðinum Dagbjörtu Dögg Karlsdóttur. Lék sína fyrstu leiki með Val árið 2015 og hefur statt og stöðugt tekið framförum síðan. Skilaði 8 stigum, 3 fráköstum og stoðsendingu að meðaltali í leik í fyrra. Við búumst við því að hún verði mikilvægur hlekkur í liði Vals í vetur.

Þakið:

Ekkert þak á þetta lið. Eins og staðan er, eru allar líkur á að þær verji alla titlana. Væri gaman ef félagið hefði ákveðið að taka þátt í Evrópukeppni.

Gólfið:

Algjört, absalút, gólf væri ef liðið lendir í öðru sæti deildarinnar.

Spá Körfunnar fyrir Dominos deild kvenna 2019/2020

  1. Valur
  2. KR
  3. Keflavík
  4. Haukar
  5. Snæfell
  6. Grindavík
  7. Breiðablik
  8. Skallagrímur