Árleg spá Körfunnar fyrir Dominos deildirnar er nú klár en sérstakir sérfræðingar Körfunnar settu saman spánna. Sérfræðingarnir eru pennar Körfunnar, leikmenn og þjálfarar sem leikið hafa í Dominos deildunum eða þekkja vel til. Það styttist óðum í að Dominos deildin hefjist og því við hæfi að byrja að telja niður með því að spá í spilin.

Við kynnum liðið sem spáð er 4. sætinu.

4. sæti – Grindavík

Grindavík gerði nokkuð vel í fyrra að ná inn í úrslitakeppnina miðað við hvað þeir voru lánlausir í málefnum erlendra leikmanna og óheppnir með meiðsli. Þetta tímabil lítur allt öðruvísi út fyrir þá. Skipta um þjálfara, Jóhann út fyrir Daníel og þá bæta þeir við sig tveimur sterkum póstum í Björgvini frá Skallagrím og Dag Kár sem kemur aftur heim úr mennskunni. Byrjunarliðið þeirra er farið að líta alveg rosalega vel út, gefið að erlendir leikmenn þeirra séu á pari. Vandamál þó, líkt og kannski í fyrra, hvort þeir séu nógu djúpir til þess að gera alvöru atlögu að toppsætunum.

Komnir:

Björgvin Hafþór Ríkharðsson frá Skallagrím

Daníel Guðni Guðmundsson (þjálfari)

Davíð Páll Hermannsson frá Keflavík

Jamal Olasewere frá Blu Basket (Ítalía)

Dagur Kár Jónsson frá Flyers Wels (Austurríki)

Farnir:

Jóhann Þór Ólafsson (þjálfari)

Jordy Kuipers til Caceres (Spánn)

Lewis Clinch óljóst

Mikilvægasti leikmaður:

Ólafur Ólafsson er herra Grindavík þessa stundina. Gæðaleikmaður sem á góðum degi gæti drifið þá allra rólegustu með sér í hvaða geðveiki sem er. Leiðtogi sem fer fram með fordæmi. Leikmaður sem fleygir sér með hausinn fyrst á eftir hverjum einasta bolta og er á sama tíma allt eins líklegur til þess að henda í 30 stiga leiki inn á milli.

Fylgist með

Ingva Þór Guðmundssyni og hans skömmustulausa leikstíl. Eftir að hafa komið heim úr námi um mitt tímabil í fyrra nær hann nú vonandi heilu tímabili fyrir uppeldisfélagið. Aðeins 21. árs gamall og á vonandi eftir að blómstra í þessu, að er virðist, stórskemmtilega liði Grindavíkur í vetur.

Þakið:

Miðað við þennan hóp sem að Grindavík er með og gefið að erlendir leikmenn þeirra séu betri en í fyrra, ætti Grindavík að geta horft upp í annað eða þriðja sætið. Á fullkomnu tímabili vinna þeir deildina.

Gólfið:

Við viljum setja varann á í þetta skiptið. Meiðsl og leikmannavandræði geta sett þá langt niður. Jafnvel niður í sjötta eða sjöunda sæti deildarinnar.

Spá Körfunnar fyrir Dominos deild karla 2019/2020

 1. _________________
 2. _________________
 3. _________________
 4. _________________
 5. Njarðvík
 6. Valur
 7. Haukar
 8. Keflavík
 9. Þór
 10. Fjölnir
 11. ÍR
 12. Þór Ak