Árleg spá Körfunnar fyrir Dominos deildirnar er nú klár en sérstakir sérfræðingar Körfunnar settu saman spánna. Sérfræðingarnir eru pennar Körfunnar, leikmenn og þjálfarar sem leikið hafa í Dominos deildunum eða þekkja vel til. Það styttist óðum í að Dominos deildin hefjist og því við hæfi að byrja að telja niður með því að spá í spilin.

Við kynnum liðið sem spáð er 3. sætinu.

3. sæti – Tindastóll

Eftir að hafa verið í fremstu röð síðastliðin ár, að mestu, undir stjórn Israel Martin, hefur nú verið skipt um mann í brúnni. Fyrrum þjálfari Þórs, Baldur Þór Ragnarsson er tekinn við. Þá missti liðið einnig þá Brynjar Þór Björnsson (KR) og Danero Thomas (Hamar) í sumar. Væntingar fyrir þetta tímabil þó ekkert minni heldur en þær hafa verið undanfarin ár. Tindastóll verður með lið sem á að geta gert tilkall til allra titla sem í boði eru.

Komnir:

Jaka Brodnik frá Þór

Baldur Þór Ragnarsson frá Þór (þjálfari)

Gerel Simmons frá Ahly-Tripoli (Lýbía)

Jasmin Perkovic frá Inter Bratislava (Slóvakía)

Sinisa Bilic frá Rogaska Crystal (Slóvenía)

Farnir:

Brynjar Þór Björnsson í KR

Israel Martin til Hauka (þjálfari) 

PJ Alawoya óljóst

Danero Thomas til Hamars

Urald King til Boulogne (Frakkland)

Dino Butorac óljóst

Mikilvægasti leikmaður:

Pétur Rúnar Birgisson var einn besti leikmaður deildarinnar á þar síðasta tímabili. Átti ekki eins gott tímabil í fyrra, en skilaði þó 14 stigum, 4 fráköstum og 5 stoðsendingum að meðaltali í leik. Pétur er skipstjórinn á þessu skipi. Ef Tindastóll á að gera vel, þá verður hann að eiga gott tímabil.

Fylgist með

Það er alltaf gaman að fylgjast með Viðari Ágústssyni spila körfubolta. Berst eins og ljón á báðum endum vallarins og bakkar ekki frá neinum manni. Spilaði 20 mínútur að meðaltali í leik í fyrra, sem er alltof lítið. Karfan kallar eftir því að spilatími hans verði hækkaður á þessu komandi tímabili.

Þakið:

Tindastóll getur vel unnið deildina. Það er ekkert mjög sennilegt, en getur allt eins orðið.

Gólfið:

Liðið endar aldrei neðar en í fjórða sæti. Heimavöllur í fyrstu umferð er öruggur fyrir Stólana.

Spá Körfunnar fyrir Dominos deild karla 2019/2020

 1. _________________
 2. _________________
 3. _________________
 4. Grindavík
 5. Njarðvík
 6. Valur
 7. Haukar
 8. Keflavík
 9. Þór
 10. Fjölnir
 11. ÍR
 12. Þór Ak