Árleg spá Körfunnar fyrir Dominos deildirnar er nú klár en sérstakir sérfræðingar Körfunnar settu saman spánna. Sérfræðingarnir eru pennar Körfunnar, leikmenn og þjálfarar sem leikið hafa í Dominos deildunum eða þekkja vel til. Það styttist óðum í að Dominos deildin hefjist og því við hæfi að byrja að telja niður með því að spá í spilin.

Við kynnum liðið sem spáð er 2. sætinu.

2. sæti – Stjarnan

Tímabilið í fyrra nokkuð kaflaskipt hjá Stjörnunni. Byrja ekki vel, en komast svo á flug í deildinni og vinna að lokum deildarmeistaratitilinn. Ná einnig að verða bikarmeistarar, en eru óvænt slegnir út í úrslitakeppninni í undanúrslitunum af ÍR. Breytingar yfir sumarið þó nokkrar. Myndum ekki segja að hópur þeirra hafi vernað neitt. Verða áfram með eitt besta lið landsins og eru líklegir til þess að vinna deildina. Missa Collin Pryor til ÍR og þá skipta þeir um alla erlenda leikmenn sína. Minna vitað með Akoh og Johnson, en Tomsick var einn besti leikmaður deildarinnar í fyrra þegar hann spilaði með Þór. Þrátt fyrir tvo titla í fyrra, mætti segja að Stjarnan hefði eitthvað að sanna í vetur. Með þennan hóp, eru þeir líklegir til þess að standa undir því. Hlynur, Ægir, Tómas, Arnþór, Tomsick og mögulega Johnson og Akoh mynda afskaplega sterkan kjarna.

Komnir:

Nick Tomsick frá Þór Þ

Kyle Johnson frá St. Jonhs (Kanada)

Jamar Akoh frá University of Montana (USA)

Farnir:

Collin Pryor til ÍR

Antti Kanervo til Helsinki Seagulls (Finnland)

Brandon Rozzell til BC Lulea (Svíþjóð)

Filip Kramer til Gießen 46ers (Þýskaland)

Mikilvægasti leikmaður:

Ægir Þór Steinarsson er þeirra mikilvægasti leikmaður. Frábær á báðum endum vallarins. Gengi liðsins í vetur veltur mikið á því hvernig hann nær að stjórna leik liðsins. Skilaði 13 stigum, 5 fráköstum og 8 stoðsendingum að meðaltali í leik í fyrra.

Fylgist með

Dúi Þór Jónsson er 18 ára bakvörður Stjörnunnar. Hefur verið einn besti leikmaður landsins í sínum aldursflokk síðastliðin ár. Spilaði 5 mínútur 2017-18 og tæpar 7 mínútur að meðaltali í leik í fyrra með liðinu. Miðað við þetta má búast við því að hann spili um 10 mínútur að meðaltali í leik í vetur. Sem verður skemmtilegt, búumst við körfum í öllum regnbogans litum.

Þakið:

Stjarnann er líkleg til þess að vinna deildina, fyrsta sætið.

Gólfið:

Ef allt fer í vaskinn hjá þeim í vetur, þá má vera að liðið hrynji niður í þriðja sætið. Enginn veruleiki til þar sem liðið endar neðar.

Spá Körfunnar fyrir Dominos deild karla 2019/2020

 1. _________________
 2. _________________
 3. Tindastóll
 4. Grindavík
 5. Njarðvík
 6. Valur
 7. Haukar
 8. Keflavík
 9. Þór
 10. Fjölnir
 11. ÍR
 12. Þór Ak