Árleg spá Körfunnar fyrir Dominos deildirnar er nú klár en sérstakir sérfræðingar Körfunnar settu saman spánna. Sérfræðingarnir eru pennar Körfunnar, leikmenn og þjálfarar sem leikið hafa í Dominos deildunum eða þekkja vel til. Það styttist óðum í að Dominos deildin hefjist og því við hæfi að byrja að telja niður með því að spá í spilin.

Við kynnum liðið sem spáð er 1. sætinu.

1. sæti – KR

Dominos er deild þar sem 12 lið eru skráð til leiks. Leiknar eru tvær umferðir á 6-7 mánuðum, svo úrslitakeppni og KR verða svo meistarar að lokum. Þetta hefur verið veruleikinn síðustu sex ár. Ótrúlegt hvað félagið hefur afrekað þessi síðustu ár og að er virðist, ætla að halda áfram að gera. Missa stóra pósta í sumar í Pavel (Valur) og Emil (Haukar), en fá í staðinn bræðurna Matthías Orra og Jakob Sigurðarsyni, sem og endurheimta þeir þá Brynjar Þór Björnsson og Mike Craion. Bætir áðurnefndum við Jón Arnór, Kristófer, Björn Kristjáns, Helga Már, fleiri og þú ert kominn með einhvern besta hóp sem þessi deild hefur séð. Ógnarsterkt lið sem þeir stilla upp og eru án alls vafa líklegastir til þess að vinna þessa deild.

Komnir:

Jakob Örn Sigurðarson frá Boras

Matthías Orri Sigurðarson frá ÍR 

Brynjar Þór Björnsson frá Tindastól

Mike Craion frá Keflavík

Farnir:

Emil Barja í Hauka

Pavel Ermolinski í Val

Mike DiNunno til Coruna (Spánn)

Julian Boyd óljóst

Vilhjálmur Kári Jensson til Álftanes

Orri Hilmarsson til Fjölnis

Mikilvægasti leikmaður:

Matthías Orri Sigurðarson hefur sýnt það síðustu ár að hann er einn besti leikmaður deildarinnar. Dróg lið ÍR alla leiðina í oddaleik úrslita á síðasta tímabili. Kominn aftur heim í KR núna og mun að öllum líkindum stjórna leik þeirra, sem og láta vel að sér kveða í stigaskorun.

Fylgist með

Sveinn Búi Birgisson er leikmaður sem gæti komist af stað með KR í vetur. Liðið er djúpt, því verða mínúturnar kannski ekki margar. Fjölhæfur 18 ára leikmaður sem hefur verið hluti af yngri landsliðum Íslands og mun án alls vafa láta að sér kveða í deildinni á næstu árum.

Þakið:

Ekkert þak á þessu KR liði.

Gólfið:

Það þarf ansi mikið að fara úrskeiðis til þess þeir vinni deildina ekki. Til vara skulum við segja að annað sætið sé það absolút lægsta sem KR getur farið í vetur. Þetta er sögulega góður hópur.

Spá Körfunnar fyrir Dominos deild karla 2019/2020

 1. _________________
 2. Stjarnan
 3. Tindastóll
 4. Grindavík
 5. Njarðvík
 6. Valur
 7. Haukar
 8. Keflavík
 9. Þór
 10. Fjölnir
 11. ÍR
 12. Þór Ak