Framherjinn Margrét Kara Sturludóttir æfir þessa dagana með Dominos deildar liði KR. Þetta staðfestir þjálfari liðsins, Benedikt Guðmundsson, í samtali við Körfuna fyrr í dag.

Margrét Kara er 30 ára framherji sem að upplagi er úr Njarðvík, en hefur leikið með Stjörnunni, Keflavík og lengst af KR á ferlinum. Síðast lék hún með Stjörnunni tímabilið 2015-16, þá skilaði hún 11 stigum, 13 fráköstum og 4 stoðsendingum að meðaltali í leik.

Var hún valin besti leikmaður efstu deildar kvenna árið 2011 er hún lék með KR. Þá á hún einnig að baki 15 landsleiki fyrir Íslands hönd.

Samkvæmt þjálfara KR æfir hún með félaginu þessa dagana og bindur hann vonir um að hún nái að vera með þeim í vetur.