Kári Jónsson mun leika með uppeldisfélagi sínu Haukum á komandi tímabili í Dominos deildinni. Þetta var staðfest nú í hádeginu en þá skrifaði hann undir eins árs samning.

Karfan ræddi við Kára eftir að hann skrifaði undir samninginn við Hauka um vistaskiptin.

“Það er gaman og spennandi að vera kominn aftur í Hauka. Maður er smá svekktur að hafa ekki getað farið til Finnlands og staðið sig þar. Maður verður bara að taka því eins og það er, ég þarf að fara aðeins hægara af stað og ná mér í góðan takt. Nú er ég bara kominn í Hauka og er mjög spenntur fyrir tímabilinu.”

Kári fékk ekki tækifæri til að sýna sig í Finnlandi þar sem hann hefur ekki náð sér að fullu af meiðslum sem hafa hrjáð hann í næstum ár. En hvernig er staðan á honum?

“Ég er ágætur. Ég er að koma mér hægt og rólega af stað. Það er daga mismunur á mér en vonandi verð ég kominn í mitt besta form fyrir fyrsta leik.” sagði Kári og bætti við um veturinn sem framundan er.

“Virkilega spennandi. Það er besta lýsingarorðið sem ég hef yfir veturinn og liðið hjá Haukum. Þetta eru margir flottir leikmenn og margir vinklar sem við getum nýtt okkur. Það er gaman að fá Israel Martin hérna og er spenntur að vinna með honum.” sagði Kári að lokum