Undir 18 ára lið Íslands leikur þessa dagana á Evrópumóti í Oradea í Rúmeníu. Í dag lagði liðið Bosníu í lokaleik sínum á mótinu, en leikurinn var hreinn úrslitaleikur um hvort liðið myndi enda í 11. sætinu.

Íslensku strákarnir fóru mun betur af stað í leik dagsins. Þegar fyrsti leikhluti var á enda var forysta þeirra 10 stig, 23-13. Undir lok fyrri hálfleiksins nær Bosnía svo að komast betur inn í leikinn, en þegar að liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik var Ísland þó enn yfir, 44-39.

Í upphafi seinni hálfleiksins snéri Bosnía svo taflinu sér í vil. Spiluðu nokkuð góðan þriðja leikhluta og voru komnir með yfirhöndina fyrir lokaleikhlutann, 59-62. Í fjórða leikhlutanum gerði Ísland svo vel í að svara áhlaupinu, vinna hlutann með 11 stigum og leikinn að lokum með 8, 80-72.

Atkvæðamestur fyrir Ísland í leiknum var Sveinn Búi Birgisson með 14 stig, 7 fráköst og 2 stoðsendingar. Maður leiksins var hinsvegar Veigar Páll Alexanderson sem að tók leikinn yfir í fjórða leikhlutanum, en hann skoraði 24 stig í heildina í leiknum.

Upptaka af leiknum

Tölfræði leiks