Vilhjálmur Kári úr KR til Álftaness

Körfuknattleiksdeild Álftaness hefur gengið frá samningi við Vilhjálm Kára Jensson frá sexföldum Íslandsmeisturum KR. Hann færir sig úr Vesturbænum yfir á Bessastaði þar sem hann mun leika undir stjórn Hrafns Kristjánssonar á næsta leiktímabili. Vilhjálmur spilar stöðu framherja, er 196 sentimetrar á hæð og aðeins 22 ára að aldri. Þetta er í fyrsta sinn sem hann færir sig um lið en hann hefur spilað með hinum sigursælu Vesturbæingum allt frá yngri flokkum.

Huginn Freyr Þorsteinsson, formaður körfuknattleiksráðs UMFÁ: Það er mikill styrkur fyrir okkur að fá svona öflugan leikmann eins og Vilhjálm inn í okkar raðir. Við höfum nýtt undirbúningstímabilið vel í að efla hópinn okkar með áherslu á að breikka liðið og vera með rétta blöndu af reynslumiklum leikmönnum og efnilegum. Fyrsta deildin verður sterk í ár og viljum við mæta klárir til leiks.