Framherjinn Mike Craion hefur gert samkomulag við KR að leika með þeim á komandi tímabili í Dominos deild karla. Staðfestir leikmaðurinn þetta í samtali við Körfuna fyrr í kvöld.

Craion er þekkt stærð í íslenskum körfubolta. Kom fyrst til Keflavíkur árið 2012, þar sem hann lék með liðinu til ársins 2014. Þá skipti hann yfir í KR þar sem hann lék til ársins 2016 og vann meðal annars tvo Íslandsmeistaratitla.

Craion lék með Keflavík á síðasta tímabili og skilaði þar 22 stigum, 11 fráköstum og 5 stoðsendingum að meðaltali í leik áður en hann fór til Blois í frönsku Pro B deildinni til að klára tímabilið þar.