Með stórum sigri á Portúgal í gær fór Ísland langleiðina með a tryggja sig áfram í undankeppni Evrópumótsins 2021. Einn leikur er eftir í þessari for-undankeppni, en hann er gegn Sviss ytra komandi miðvikudag.

Í sem fæstum orðum er staðan þannig að Ísland mun alltaf allavegana enda í efsta sæti hans. Einir í efsta sætinu ef að þeir vinna leikinn á miðvikudaginn, en jafnir bæði Portúgal og Sviss ef að þeir tapa. Þá eru það stig skoruð sem skipta máli. Vegna þess hversu stór sigur Íslands var í gær, má liðið tapa með 20 stigum eða minna fyrir Sviss og samt komast áfram.

Fari svo að Ísland komist áfram í undankeppnina, þá verða þeir í riðli með Serbíu, Finnlandi og Georgíu. Þar sem að leikið verður í þremur gluggum. Febrúar 2020, nóvember 2020 og febrúar 2021. Þrjú efstu lið hvers riðils komast áfram, nema ef að ein þeirra þjóða sem heldur mótið er í riðlinum, þá eru það sú þjóð og tvö hæstu.

Jón Arnór í leik gegn Serbíu á EuroBasket 2015

Slíkt er einmitt í tilviki E riðils, sem Ísland færi í. Ásamt Þýskalandi, Ítalíu og Tékklandi er Georgía að halda mótið. Væru það því aðeins tvö af Serbíu, Finnlandi og Íslandi sem kæmust á lokamótið.

Ljóst er að um erfiða leið er að ræða fyrir íslenska liðið, þar sem að þessi riðill er gífurlega sterkur. Serbía sem stendur í 4. sæti heimslistans, Finnland númer 21 og Georgía 26. Á meðan að Ísland er númer 50.

Fari svo að Ísland komist áfram á miðvikudaginn, er þó alveg í lagi fyrir íslenska aðdáendur að fara að hlakka til þess að sjá nokkur góð lið spila heima í Laugardalshöllinni og jafnvel þó leiðin sé erfið, þá vita það líklega fáir betur en íslendingar að miði er möguleiki.