Hér að neðan má sjá einkunnir leikmanna íslenska liðsins úr leiknum gegn Portúgal. Leikmönnum eru gefnar einkunnir útfrá tölfræði, væntingum til þeirra miðað við hlutverk og spilatíma og líka þáttum sem sjást ekki endilega í tölfræðiskýrslunni.

Hörður Axel Vilhjálmsson – 8

Flottur leikur hjá Herði Axel. Sérstaklega í seinni hálfleik þar sem hann setti nokkur góð þriggja stiga skot, stýrði leik liðsins ágætlega og spilað að venju flottan varnarleik, bæði frá og á boltanum.

Martin Hermansson – 9- Maður leiksins

Sóknarleikur í sérklassa í liðinu, duglegur að komast inn í miðjuna og olli miklum usla. Stigahæstur(28), stoðsendingahæstur(5) og stal flestum boltum(4). Þjófahátturinn kostaði hann þó nokkrum sinnum varnarlega þegar hann missti mannin auðveldlega framhjá sér.

Jón Axel Guðmundsson – 7

Þriggja stiga skotið hjá Jóni var ekki að detta í kvöld (1/6) en setti allar 2gja stiga tilraunirnar sínar. Gekk ekki alveg nógu vel að opna fyrir liðsfélaga sína út úr boltaskrínum en barðist ágætlega varnarlega og komst ágætlega frá sínu þó maður hefði viljað sjá enn meira sóknarframlag.

Pavel Ermolinski – 6

Flottur leikur varnarlega hjá Pavel sem að fékk startið að þessu sinni í stöðu framherja. Sóknarlega átti hann nokkrar fínar sendingar þó svo að hann hafi ekki verið að leita mikið að sínu eigin skoti.

Tryggvi Snær Hlinason – 8

Gríðarlega öflugur varnarlega og breytti fleiri skotum en undirritaður hafði tölu á, hélt sínu eftir skipti og passaði körfuna alúðlega. Sóknarlega fínn leikur hjá Tryggva og ekkert nema ólukka að hann hafi ekki lokað leiknum fyrir Ísland með síðasta skoti leiksins.

Hlynur Bæringsson – 6

Hlynur setti mjög stórt skot í lok leiksins sem hefði getað farið langt með leikinn, öflugur varnarlega og að venju okkar besti frákastari. Hleypti sínum manni í full auðvelt skot í síðustu sókn Portúgala og skaut boltanum ekki vel.

Ægir Þór Steinarsson – 7

Mikil orka í Ægi að venju og alltaf jafn gaman að horfa á hann spila pikk og ról vörn. Fékk ekki margar mínútur en hafði mikil áhrif á leikinn á sínum spilatíma.

Elvar Már Friðriksson – 5

Átti erfitt uppdráttar varnarlega, festist á skrínum og var ekki alveg fyllilega með á nótunum. Sóknarlega alltaf sterkur og setti mark sitt á leikinn þar.

Frank Aron Booker – 3

Var einfaldlega frekar slakur í sínum fyrsta leik, klikkaði á öllum sínum skotum og var týndur varnarmegin á vellinum. Vonandi gengur betur næst.

Gunnar Ólafsson – spilaði lítið og setti ekki mark sitt á leikinn

Hjálmar Stefánsson – Spilaði lítið og setti ekki mark sitt á leikinn

Ólafur Ólafsson – Spilaði ekki