Það voru heldur betur stórtíðindi sem bárust úr Los Angeles-borg aðfararnótt laugardagsins 6. júlí, þegar tilkynnt var að Kawhi Leonard, verðmætasti leikmaður nýyfirstaðinnar úrslitaseríu NBA-deildarinnar, myndi skrifa undir samning við Los Angeles Clippers. Mikið hefur verið rætt og ritað um möguleg félagaskipti Leonard í sumar, en meðal þeirra liða sem hafa verið orðuð við kappann var hitt liðið í Los Angeles, Lakers. Nú er hins vegar ljóst að Leonard mun ekki ganga til liðs við Lebron James og félaga, heldur “litla bróður” í Clippers. Samkvæmt heimildum ESPN hljómar samningurinn upp á fjögur ár og 142 milljónir Bandaríkjadala, sem gera um 17,9 milljarða íslenskra króna.

Leonard var frábær á síðasta tímabili með liði Toronto Raptors, þar sem hann leiddi liðið til fyrsta NBA-meistaratitilsins í sögu félagsins, en Leonard skoraði 26,6 stig að meðaltali yfir tímabilið og 30,5 stig að meðaltali í úrslitakeppninni.

Þetta voru þó ekki einu stórtíðindin sem bárust úr herbúðum Clippers liðsins því liðið hefur að sögn fjölmiðla vestanhafs einnig fengið Paul George til sín frá Oklahoma City Thunder, í skiptum fyrir þá Shai Gilgeous-Alexander og Danilo Gallinari, auk 5 valrétta í nýliðavölum framtíðarinnar.

George, sem gekk til liðs við Thunder árið 2017, var frábær á síðasta tímabili, en hann skoraði 28 stig að meðaltali í leik.

Fróðlegt verður að sjá hvaða áhrif þessi stórtíðindi hafa á landslagið í deildinni, og einkum innan Los Angeles borgar, enda er ljóst að bæði LA-liðin hafa stórar væntingar fyrir komandi tímabil.