Lokakeppni í EM kvenna fór fram í Belgrad í Serbíu dagana 27. júní til 7. júlí.  Voru það Spánn og Frakkland er mættust í úrslitaleiknum en sömu lið mættust í lokaúrslitum EM árið 2017 þar sem Spánn varð Evrópumeistari. Reyndar hefur Frakkland spilað til úrslita í síðustu þremur lokakeppnum en ávallt beðið í lægri hlut og endað með silfurverðlaun. Var þetta því fjórða tilraun þeirra til að vinna gullið. Það var því mikil spenna í gangi fyrir leikinn þar sem Spánn stefndi á að verja evrópumeistaratitill sinn en Frakkland vildi enda silfur-göngu sína og enda sem sigurvegari. Skemmst er frá því að segja að Frakkland átti aldrei möguleika. Spánverjar byrjuðu af mikilli hörku og enduðu á að vinna leikinn örugglega 88-66. Marta Xargay leiddi liðið til sigurs með 23 stig og Laura Gil var nálægt tvöfaldri tvennu með 9 stig og 10 fráköst. Hjá Frakklandi var Sandrine Gruda stigahæst með 18 stig og 6 fráköst.

Serbía vann sér inn bronsverðlaun eftir að hafa unnið Bretland auðveldlega 81-55 en Bretland hafði komið öllum á óvart í keppninni með að komast upp úr riðlakeppninni og alla leið í undanúrslitin.

Úrvalslið mótsins voru:

Astou Ndour – 14,8 stig, 8,2 fráköst og 0,3 stoðsendingar – frá Spáni – MVP

Marta Xargay – 14,2 stig, 2 fráköst og 2,5 stoðsendingar – frá Spáni

Sonja Petrovic – 11,1 stig, 6,3 fráköst og 3,0 stoðsendingar – frá Serbíu

Sandrine Gruda – 15,5 stig, 7,2 fráköst og 2,3 stoðsendingar – frá Frakklandi

Temi Fagbenle – 20,9 stig, 6,7 fráköst og 1,6 stoðsending – frá Bretlandi

Ein Norðurlandaþjóð var í lokakeppninni en það var Svíþjóð og þótti liðið einnig hafa farið fram úr væntingum en Svíþjóð komst alla leið í  8 liða úrslit. Það þýðir að Svíþjóð mun eiga sæti í undankeppni fyrir næstu Ólympíuleika.

FIBA fjallaði mjög vel um keppnina og er meðal annars hægt að sjá upptöku frá öllum leikjunum á heimasíðu þeirra. Körfuboltaáhugamenn geta því stytt biðina eftir Dominosdeildunum með því að kíkja á upptökur af mótinu eða fylgjast með WNBA sem er í fullum gangi þessa dagana.

Ísland hefur sett sér það markmið að komast á lokakeppni EM kvenna innan fárra ára. Körfuboltaáhugamenn er fylgdust með þessari lokakeppni EM sem og gengi yngri landsliða kvenna síðustu árin sjá að töluverður munur er á bestu liðunum og þeim stað sem íslenska landsliðið er á í dag. Fyrst og fremst er mikill munur á líkamlegu atgervi íslenskra leikmanna og þeirra bestu og ljóst er að ef Ísland ætlar að eiga landslið í lokakeppni Evrópumóts kvenna þá þurfa allir aðilar að gera mun betur. Á það við um alla hvort sem það er KKÍ, félögin, þjálfarar, leikmenn eða styrktaraðilar. En fyrst og fremst þá byrjar þetta hjá leikmönnunum sem verða að vilja komast á þetta getustig, með tilheyrandi vinnu og fórnum er því þarf að fylgja.

Mynd: FIBA

Texti: Bryndís Gunnlaugsdóttir