ÍR ætlar sér stóra hluti í 1. deild kvenna á næstu liði og safnar nú liði fyrir komandi átök. Í gær var tilkynnt að liðið hefði samið við Sólrúnu Sæmundsdóttur um að leika með liðinu á komandi leiktíð en hún kemur frá Stjörnunni.

Í tilkynningu ÍR segir: Sólrún hóf sinn körfuboltaferil hjá ÍR en færði sig yfir til KR á unga aldri þar sem fáar stelpur voru að spila í Breiðholtinu á þeim tíma. Hún var lykilleikmaður í liði Skallagríms er liðið vann sigur í 1.deildinni tímabilið 2016-2017. Síðasta vetur spilaði hún með Stjörnunni og stóð sig virkilega vel og hlutverk hennar stækkaði jafnt og þétt yfir veturinn.

Fyrr í sumar hafði liðið endurnýjað samninga við eftirfarandi leikmenn: Arndís Þóra Þórisdóttir, Sigríður Antonsdóttir, Kristín Rós Sigurðardóttir, Birna Eiríksdóttir, Rannveig Bára Bjarnadóttir, Guðrún Eydís Arnarsdóttir, Sigurbjörg Rós Sigurðardóttir og Bylgja Sif Jónsdóttir. Þá mun Ólafur Jónas Sigurðsson stýra liðinu áfram.